Innlent

Gervihnattaútsending RÚV ekki fyrir alla

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Útsendingar RÚV um gervihnöttinn Thor munu standa eitthvað fram á sumar en óvissa er með framhaldið.
Útsendingar RÚV um gervihnöttinn Thor munu standa eitthvað fram á sumar en óvissa er með framhaldið. VÍSÍR/GVA
Sökum óvissu um framtíð útsendinga Ríkissjónvarpsins um gervihnöttinn Thor hefur RÚV ekki talið ráðlegt að kaupa ný kort sem setja þarf í sérstaka afruglara til að ná útsendingunum. Margrét Magnúsdóttir, skrifstofustjóri RÚV, segir einungis hægt að kaupa mikið magn korta í einu upp á milljónir króna.

Þar af leiðandi stendur þessi lausn þeim sem ekki ná venjulegum útsendingum RÚV og hafa ekki aðgang að gervihnattaútsendingunni nú þegar ekki til boða.

Upphaflega var markmið útsendinganna að ná til sjófarenda og fólks sem býr við erfið móttökuskilyrði en með nýju dreifikerfi RÚV er ekki sama þörf á þjónustunni og áður fyrir síðarnefnda hópinn. Enda nær nýja dreifikerfið til um 99,9 prósenta Íslendinga samkvæmt RÚV. Þó er enn þörf fyrir örfáa innan þess hóps, auk þess sem þörfin fyrir sjófarendur hefur ekki breyst.

RÚV hefur frá árinu 2007 sent út á gervihnettinum á grundvelli samnings stjórnvalda við norska fjarskiptafyrirtækið Telenor. Sá samningur var til þriggja ára og var einungis heimilt að framlengja hann út árið 2014. Sá samningur er því útrunninn.

Árlegur kostnaður við útsendingarnar yfir samningstímann hefur verið um það bil fjörutíu milljónir.

Margrét Magnúsdóttirright
Margrét gerir ráð fyrir því að bjóða þurfi þjónustuna út að nýju. Það er að segja ef ákvörðun verður tekin um að halda útsendingum áfram.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra sagði í viðtali við RÚV í júní 2014 að fjármagn þyrfti að tryggja fyrir varanlega lausn, enda litu stjórnvöld á það sem hluta af grunnþjónustu RÚV að koma efni sínu til sjófarenda og fólks sem býr þar sem móttökuskilyrði eru erfið.

Fjármálaráðherra lagði því til í frumvarpi til fjáraukalaga fyrir árið 2014 að fjárframlag ríkissjóðs til þessa máls yrði hækkað um tíu milljónir króna, eða upp í fjörutíu milljónir samtals, til að halda útsendingum áfram, auk þess sem varanleg lausn yrði fundin. Þeirri tillögu hafnaði þingið og því var fjármagn til útsendingarinnar á þrotum og samningurinn rann út.

„Þó hafa nokkur ráðuneyti veitt framlög til málsins á árinu og tryggt útsendingar eitthvað fram á sumarið á meðan endanleg ákvörðun liggur ekki fyrir. Okkar von er að góð lausn finnist að lokum,“ segir Margrét.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×