Skoðun

Ójöfnuður

Guðmundur Örn Jónsson skrifar
Lengi vel voru upplýsingar um tekjudreifingu á Íslandi vel varðveitt leyndarmál. Þegar aðgerðir ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna fóru að auka ójöfnuð upp úr 1990, lögðu flokkarnir Þjóðhagsstofnun niður og hættu að birta upplýsingar um tekjudreifingu. Ísland var því oft eina vestræna landið í skýrslum alþjóðastofnana þar sem ekki voru upplýsingar um tekjudreifingu og enginn á Íslandi virtist hafa sérstakar áhyggjur af því.

Nú ber svo við að Viðskiptaráð hefur fengið skyndilegan áhuga á tekjudreifingu og sakar þingmenn Samfylkingarinnar um lygar þegar þeir halda því fram að ójöfnuður hafi aukist.

Í þessu samhengi má minnast á orð Mark Twain sem sagði að til væru þrjár tegundir lygi: Lygi, haugalygi og tölfræði. Í tilfelli Viðskiptaráðs á hið síðasta við. Þeir benda réttilega á að ójöfnuður, mældur með Gini-stuðli, hafi lækkað milli 2009 og 2013, þegar vinstristjórnin var við völd. Þeir segja aftur á móti ekki að ójöfnuður jókst um 73% á sama mælikvarða milli 1995 og 2005 þegar sjálfstæðis- og framsóknarmenn voru við völd. Viðskiptaráð segir ekki heldur frá því að eftir að sjálfstæðis- og framsóknarmenn tóku aftur við völdum hafa þeir breytt tekjuskatti og auðlegðarskatti, lækkað veiðigjald og framkvæmt „Leiðréttinguna“ á þann hátt að það mun óhjákvæmilega leiða til aukins ójafnaðar.

Rannsóknir hafa sýnt að ójöfnuður hefur mikil og skaðleg áhrif á hagsæld þjóða. Vonandi verður útspil Viðskiptaráðs tilefni til aukinnar umræðu um þennan mikilvæga þátt svo þróunin frá 1990 fram að hruninu árið 2008 endurtaki sig ekki.




Skoðun

Sjá meira


×