Innlent

Leggja til starfsleyfi í fjögur ár í viðbót

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Malbikunarstöðin Höfði. Frestur til að gera athugasemdir við tillögu að nýju starfsleyfi Höfða er til 8. júní næstkomandi.
Malbikunarstöðin Höfði. Frestur til að gera athugasemdir við tillögu að nýju starfsleyfi Höfða er til 8. júní næstkomandi. Fréttablaðið/Vilhelm
Malbikunarstöðin Höfði við Sævarhöfða í Reykjavík fær endurnýjað starfsleyfi til 1. febrúar 2019, samkvæmt tillögu Umhverfisstofnunar.

Í tillögunni er farið að beiðni í umsögn skipulagssviðs borgarinnar þar sem bent er á að í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010 til 2030 sé mörkuð stefna um að landfrek og mengandi iðnaðarstarfsemi skuli víkja af Ártúnshöfðanum.

Gert sé ráð fyrir að á svæðum í Ártúnshöfða og beggja vegna Elliðaárvogs fari að rísa blönduð byggð á árunum 2016 til 2020. Bent er á að starfsemi Höfða sé þegar í ósamræmi við áætlaða landnotkun.

Umhverfisstofnun bendir einnig á að í umsögninni hafi komið fram að kappkostað verði að finna nýjan stað fyrir reksturinn „óháð viðkomandi ártali“.

Nýtt starfsleyfi er um margt sagt sambærilegt hinu fyrra utan tímamarkanna og að losunarmörk séu sett fyrir köfnunarefni, kolmónoxíð og PAH-efni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×