Innlent

Undirverktakar fresta vinnustöðvun

sveinn arnarsson skrifar
Samninganefnd AFLs starfsgreinafélags hefur frestað verkfalli undirverktaka hjá Alcoa Fjarðaáli um átta sólarhringa. Svo virðist sem ákveðinn skriður sé kominn á viðræðurnar. Munum nýta tímann vel, segir Sverrir Már Albertsson hjá AFL.
Samninganefnd AFLs starfsgreinafélags hefur frestað verkfalli undirverktaka hjá Alcoa Fjarðaáli um átta sólarhringa. Svo virðist sem ákveðinn skriður sé kominn á viðræðurnar. Munum nýta tímann vel, segir Sverrir Már Albertsson hjá AFL.
Samninganefnd AFLs starfsgreinafélags ákvað samhljóða um síðustu helgi að fresta boðuðu verkfalli undirverktaka hjá Alcoa Fjarðaáli um átta daga. Um er að ræða sjö fyrirtæki sem eru aðilar að Samtökum atvinnulífsins og eitt fyrirtæki utan SA. Skriður er kominn á samningaviðræður í kjaradeilunni.

Á samningafundi síðastliðinn fimmtudag lagði starfsgreinafélagið á borðið ákveðin atriði sem það vildi ræða og náðist ágætis árangur á fundinum. Markmið félagsins eru um ákveðin lágmarkslaun undirverktaka og lagði félagið fram tilboð um að álverið gerði að skilyrði í útboðslýsingu að lágmarkskjör yrðu tryggð og að undirverktakar gerðu samninga sem tryggðu lágmarkskjör starfsmanna undirverktaka.

Að sögn Sverris Má Albertssonar, framkvæmdastjóra AFLs, er verkfall neyðarúrræði og ef talið er mögulegt að ná samningum áður en til verkfalls kemur væri sá möguleiki nýttur. „Við vonumst auðvitað eftir því að samningar náist áður en við þurfum að grípa til verkfalla. Ég bind vonir við það að við getum landað samningum. Að öðru leyti er ekki hægt að tjá sig um stöðuna,“ segir Sverrir Már.

Starfsgreinafélagið vonar að vikan dugi til að ná samkomulagi sem verði hægt að greiða atkvæði um.

Þorsteinn Víglundssonvísir/gva
Markmið samninganefndar félagsins er að tryggja undirverktökum sömu kjör og réttindi og starfsmenn Alcoa Fjarðaáls hafa. Mikilvægt er að þeirra mati að sömu kjör gildi fyrir alla þá starfsmenn sem vinna á svæðinu og laun séu samræmd milli verktakafyrirtækja. Einnig vill starfsgreinafélagið tryggja í samningagerðinni nú að ákveðin lágmarkslaun séu innan álverssvæðisins. Það er gert með það fyrir augum að verktakar geti síður boðið lægra í verk á svæðinu með því að greiða lægri laun til starfsmanna sinna.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segist vona að samningar geti náðst áður en til verkfalla komi í deilunni. „Lykilatriði er að menn eru að tala saman og það virðist vera sem svo að aðilar séu líklegir til að geta nýtt tímann áður en til verkfalla kemur til að ná samkomulagi,“ segir Þorsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×