Innlent

Á móti kaupauka bankanna

sveinn arnarsson skrifar
Framsóknarflokkurinn samþykkti tillögu í andstöðu við stjórnarfrumvarp.
Framsóknarflokkurinn samþykkti tillögu í andstöðu við stjórnarfrumvarp.
Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, mun ekki greiða frumvarpi fjármálaráðherra um fjármálafyrirtæki atkvæði sitt að óbreyttu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að kaupaukagreiðslur starfsmanna fjármálafyrirtækja geti numið allt að fjórðungi heildarlauna starfsmanna þeirra. Þessu ákvæði er Karl ósammála. „Ég mun ekki samþykkja frumvarp fjármálaráðherra að óbreyttu. Það væri þá í andstöðu við þá samþykkt sem ég lagði til á flokksþingi Framsóknarflokksins og fékk samþykkta með miklum meirihluta,“ segir Karl.

Bjarni Benediktsson Fjármálaráðherra hefur lagt fram stjórnarfrumvarp sem gerir ráð fyrir að kaupaukar geti numið fjórðungi heildarlauna starfsmanna.Fréttablaðið/GVA
Á flokksþinginu um helgina samþykkti flokkurinn tillögu Karls um að kaupaukar fjármálafyrirtækja yrðu með öllu bannaðir. Mikill meirihluti flokksmanna samþykkti tillöguna sem eina af stefnum flokksins til næstu tveggja ára.

„Frumvarp fjármálaráðherra er nú í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar þingsins og getur tekið breytingum innan nefndarinnar. Nú þurfum við bara að bíða og sjá hvaða breytingum frumvarpið mun taka í nefndinni,“ segir Karl.

Formaður efnahags- og viðskiptanefndar þingsins, Frosti Sigurjónsson, segist munu berjast fyrir breytingum á frumvarpi nefndarinnar og að frumvarpið gangi gegn stefnu Framsóknarflokksins. „Við hljótum að vinna eftir stefnu Framsóknarflokksins,“ segir Frosti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×