Innlent

Í návígi við sprengjurnar

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Alberto Cairo kom í stutta heimsókn til Íslands nýverið til að ræða við fulltrúa Össurar og starfsfólk Rauða krossins.
Alberto Cairo kom í stutta heimsókn til Íslands nýverið til að ræða við fulltrúa Össurar og starfsfólk Rauða krossins. Vísir/Valli
Hann segist lifa ósköp venjulegu lífi í Kabúl. Þangað kom hann fyrst árið 1989 þegar Sovétmenn voru nýfarnir. Hann bjó í Kabúl meðan talibanar voru við völd og þar býr hann enn, starfar á vegum Alþjóðanefndar Rauða krossins við að hjálpa særðu og limlestu fólki að koma undir sig fótunum á ný.

„Það er ekkert friðvænlegra núna í Kabúl en verið hefur,“ segir Alberto Cairo, ítalskur sjúkraþjálfari, sem hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín í Afganistan undanfarinn aldarfjórðung. Hann var í stuttri heimsókn hér á landi nýverið.

„Það er alltaf hættulegt að vera þar. Sprengjur geta sprungið hvenær sem er. En á hinn bóginn þá veitir merki Rauða krossins mikla vernd. Fólk ber mikla virðingu fyrir okkur og því sem við erum að gera. Það hefur alltaf verið svo.“

Hann segir talibanana þar ekki hafa verið neina undantekningu.

„Þeir sýndu okkur virðingu. Þegar maður gerir gagn, þá er alltaf borin virðing fyrir því. Ef maður væri ekki að gera gagn, þá myndu þeir ekki sjá neinn tilgang í því að maður væri að flækjast þarna. Héldu kannski að maður væri njósnari eða eitthvað. En þeir sendu til okkar ættingja sína og nánustu fjölskyldu. Samfélagið í Afganistan er mjög íhaldssamt, þannig að ef talibanarnir senda til manns eiginkonu sína eða systur, eða börnin sín, þá fer ekki á milli mála að maður hefur áunnið sér traust þeirra.“

Hann segir þetta traust samfélagsins hafa ráðið úrslitum um að hægt hefur verið að halda úti þessu starfi allan þennan tíma, þrátt fyrir allt sem hefur gengið á þennan aldarfjórðung sem hann hefur búið í Kabúl.

„Þetta var stundum kannski svolítið flókið. En alltaf mjög gefandi. Það sem hjálpar mér og félögum mínum að vera þarna áfram eftir svona mörg ár er að sjá fólk koma til okkar í mjög erfiðu ástandi en fara svo frá okkur gangandi.“

Samstarfið við ÍslandTilefni Íslandsheimsóknarinnar var að hitta bæði starfsmenn Rauða krossins hér á landi og fulltrúa Össurar, fyrirtækis sem lengi hefur verið í fremstu röð við smíði gervilima. Í rúmlega tvö ár hefur Cairo nefnilega verið í samstarfi við íslenska Rauða krossinn um félagslega endurhæfingu fyrir fórnarlömb jarðsprengna. Rauði krossinn fjármagnar starfið, Össur útvegar gervilimi en Cairo og félagar sjá svo um að koma fólkinu aftur út í lífið. 

„Ég kom hingað til að kasta kveðju á fólkið og útskýra hvað við erum að gera. Svo hef ég aldrei komið til Íslands. Mig langaði til að þakka fyrir okkur með von um að þessi aðstoð og samvinna geti haldið áfram. Trúðu mér, þörfin er mikil.“

Cairo er yfirmaður endurhæfingarstarfsins, sem er með aðalbækistöðvar í Kabúl en útibú í sex borgum landsins. Hann skiptir tíma sínum þannig að helming hans dvelst hann í Kabúl en hinn helming tímans ferðast hann á milli hinna stöðvanna sex.

„Þetta félagslega verkefni, sem er í samstarfi við Ísland, snýst um að hjálpa fólkinu eftir að það er komið með gervilimi. Við reynum að veita því menntun, starfsþjálfun, smálán og hjálpa því að finna vinnu. Svo hvað störfin varðar þá höfum við sjálf tekið upp þá stefnu að vera með jákvæða mismunun, þannig að við ráðum engan til okkar nema hann sé fatlaður. Hjá okkur, á stöðvunum sjö, starfa meira en 700 manns, allt Afganar, og 685 þeirra eru fatlaðir. Þannig að þetta er ströng regla: Ef þú vilt vinnu þá þarftu að vera fatlaður. Í sjálfu sér er þetta rangsnúið, því auðvitað eigum við að aðlaga fólk að samfélaginu og láta fatlaða og ófatlaða starfa saman, en á meðan staðan er þessi að enginn veitir fötluðum vinnu þá höfum við þá stefnu að veita eingöngu fötluðum vinnu. Þannig að þetta er okkar stríð gegn samfélaginu, gegn fordómum.“

Afganistan var tilviljunCairo er menntaður sjúkraþjálfari en lærði reyndar upphaflega lögfræði.

„Ég kláraði próf í lögfræði heima á Ítalíu og átti að verða lögfræðingur, en hætti eftir að hafa starfað við það um tíma. Sjúkraþjálfun var áhugamál sem ég stundaði í frítíma mínum og hafði mjög gaman af. En þar kom að mér fannst ég þurfa að gera upp við mig hvort ég ætti að verða lögfræðingur í fullu starfi eða hvort ég ætti kannski að gera áhugamálið að starfsvettvangi mínum. Niðurstaðan varð sú að ég fór aftur í skóla og fékk réttindi sem sjúkraþjálfari. Starfaði sem slíkur fyrst í nokkur ár á Ítalíu, svo í Afríku og loks í Afganistan. Og þar er ég enn.“

Hann segir tilviljun hafa ráðið því að hann fór til Afganistans.

„Ég var í Afríku seint á níunda áratugnum og var að svipast um eftir nýju verkefni við mannúðarstörf einhvers staðar. Svo ég sendi bréf til Rauða krossins í Genf og sagði þeim að ég væri tiltækur ef þau vildu mig. Og þau sögðu mér að það væri verkefni í Afríku og ég sagði gott og vel, var mjög ánægður með það, en svo á síðustu stundu, þremur vikum fyrir brottför, þá sögðu þau mér að þetta væri ekki í Afríku heldur Afganistan, og spurðu hvort það væri í lagi mín vegna? Og ég sagði það vera í lagi mín vegna. Þannig að ég valdi þetta ekki, það gerðist bara. En ég held að þetta hafi verið góð niðurstaða.“

Gefandi starfHann segir starfið í Afganistan vera mjög gefandi, enda þörfin gríðarleg. Starfið hafi þó tekið nokkrum breytingum í tímans rás.

„Framan af fengum við eingöngu til okkar fólk sem hafði skaddast í stríðsátökum. Dæmigerðir sjúklingar hjá okkur voru menn, konur eða börn sem höfðu lent í jarðsprengjum. En árið 1994 ákváðum við að það væri ekki lengur hægt að aðgreina fólk með þessum hætti, þannig að þeir sem höfðu til dæmis lent í bílslysi fengju ekki meðferð hjá okkur. Við fáum nú á hverju ári níu þúsund nýja sjúklinga, en af þeim eru einungis 1.500 fórnarlömb stríðsátaka. Hinir hafa fatlast af öðrum ástæðum, vegna erfðagalla, meiðst í bílslysum, fengið slag eða sjúkdóma af ýmsu tagi. 

Auðvitað fáum við enn fólk með stríðsskaða. Og það er ekkert lát á því vegna þess að jarðsprengjurnar eru þarna enn þá. Og svo er hin hliðin, sem er forvarnastarfið. Það þarf að bólusetja fólk svo það fái ekki berkla til dæmis, en því starfi er öllu mjög ábótavant. Fólk verður fatlað vegna ýmissa sjúkdóma sem við sjáum ekki lengur hér á Íslandi og Vesturlöndum vegna forvarnastarfsins.“

Enginn hörgull er á fólki til starfa hjá Rauða krossinum í Afganistan.

„Okkur hefur tekist að gera fleira en að sinna bara sjúklingum frá degi til dags, því við höfum einnig getað fjárfest í þjálfun og kennslu, þannig að nú erum við með marga sjúkraþjálfara og marga bæklunarlækna, allt saman Afganar sem eru mjög duglegir. Þannig að við erum vel mönnuð. Auðvitað væri gott ef við hefðum fleiri stöðvar víðar um landið, en við höfum komið upp tilvísunarkerfi þannig að þar sem við erum ekki með bækistöð, þar getur fólk leitað til heilsugæslustöðvar, sem oftast er þá á vegum Rauða hálfmánans, og fengið tilvísun þaðan til okkar.“

Íþróttirnar eflaNýjasti þátturinn í endurhæfingarstarfinu eru íþróttir. sem Cairo segir að hafi náð að gjörbreyta lífi fjölda fólks.

„Þetta er mjög skemmtilegt og það eina sem ég sé eftir er að hafa ekki byrjað á þessu fyrr, því ég gerði mér enga grein fyrir því hvað íþróttir geta verið öflugar. Við erum með fótbolta, badminton, blak og hjólastólakörfubolta. Og við erum með lið úti um allt, bæði konur og karla í sex borgum landsins. Ég hef vissulega séð miklar breytingar verða á fólki í endurhæfingarstarfinu okkar, en það er alveg ótrúlegt hvað íþróttirnar hafa mikil áhrif. Þetta breytir bæði hugsunarhætti og líferni fólks, hvernig það á samskipti við aðra. Þetta gefur fólki bæði sjálfstraust og sjálfsvirðingu. Svo fæ ég svo mikið út úr þessu sjálfur. Ég er að þjálfa og þarf að hlaupa mikið. Þetta hjálpar mér að halda mér í formi.“

Cairo býr einn í íbúð inni á afgirtri húsalóð í Kabúl. Það eru verðir við hliðið, en þeir eru óvopnaðir. 

„Ég lifi bara ósköp venjulegu lífi,“ segir hann. „Ég hef mikið að gera. Á hverjum degi hitti ég sjúklingana. Þeir eru fjölskyldan mín.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×