Innlent

Segja regluverk smávirkjana fullnægjandi

svavar hávarðsson skrifar
Stofnanir greinir á um hvort regluverk smávirkjana sé ásættanlegt.
Stofnanir greinir á um hvort regluverk smávirkjana sé ásættanlegt. mynd/magnús
Gildandi regluverk er fullnægjandi til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif smávirkjana á ferskvatnsfiska og lífríki þeirra, er mat Orkustofnunar sem birtir þetta álit sitt á heimasíðu sinni vegna skýrslu Veiðimálastofnunar um áhrif virkjana undir 10 MW á lífríkið.

Það er álit Veiðimálastofnunar að umhverfisáhrif þessara virkjana séu sjaldan metin en geti í mörgum tilvikum verið umtalsverð. Á það bæði við um virkjanir í rekstri og aflögð mannvirki. Um 250 slíkar virkjanir eru í rekstri í dag og 350 aðrar hafa verið aflagðar.

Orkustofnun segir að frá 2008 hafi þurft leyfi Orkustofnunar til að reisa og reka raforkuver, nema það sé undir 1 MW til einkanota. Þá sé óheimilt, nema að fengnu leyfi Orkustofnunar eða Fiskistofu, að breyta vatnsfarvegi með mannvirkjum, þ.m.t. stíflum, vegna virkjana.

Þá segir jafnframt að með breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum skuli virkjun með uppsett rafafl 200 kW eða meira tilkynnt til Skipulagsstofnunar sem metur þörf á umhverfismati. Minni virkjanir en það eru tilkynningaskyldar til Skipulagsstofnunar sem gefur út leiðbeiningar um mat á umhverfisáhrifum þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×