Innlent

Vísbendingar um markaðsmisnotkun

Í Kauphöll Íslands. Óvenjulega mikil hækkun er síðasta dag ársins en svo virðist sem hækkanir gangi til baka strax á fyrsta degi nýs árs.
Í Kauphöll Íslands. Óvenjulega mikil hækkun er síðasta dag ársins en svo virðist sem hækkanir gangi til baka strax á fyrsta degi nýs árs. Fréttablaðið/Daníel
Hækkun ICEX-vísitölunnar síðasta dag ársins bendir til markaðsmisnotkunar þar sem aðilar á íslenskum verðbréfamarkaði fegri ársuppgjör sín. Þetta er ein niðurstaðna rannsóknar Stefáns Baldurs Gunnlaugssonar, dósents við Háskólann á Akureyri, á íslenskum hlutabréfamarkaði.

Stefán B. Gunnlaugsson
Stefán kynnti niðurstöður rannsóknar sinnar í erindi á málstofu í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri síðastliðinn föstudag. Rannsóknin snýr að breytingum ICEX-vísitölunnar frá ársbyrjun 1993 til 2013. Þar kemur fram samhengi milli vikudags og ávöxtunar íslenskra hlutabréfa. Ávöxtun sé mest á fimmtudögum og föstudögum en lítil sem engin í byrjun vikunnar.

Einnig kemur fram að síðasta dag ársins hafi vísitalan hækkað um 0,45 prósent að miðgildi en lækkað um 0,48 prósent á fyrsta degi ársins. Á seinni hluta tímabilsins sé enn sama uppi á teningnum. ICEX-vísitalan fer upp um 0,51 prósent að meðaltali á síðasta degi ársins en niður um 0,22 prósent á fyrsta degi nýs árs. „Þetta bendir til þess að aðilar á íslenskum verðbréfamarkaði séu að fegra uppgjör sín. Það skýtur skökku við að það sé svona mikill munur á síðasta degi ársins og fyrsta degi nýs árs,“ segir Stefán.

Brot á lögum um verðbréfaviðskipti geta varðað sektum og fangelsi allt að sex árum séu brotin stórfelld.

Baldur Thorlacius
Baldur Thorlacius, forstöðumaður Eftirlits Kauphallarinnar, segir eftirlit með viðskiptum mjög mikilvægt og að í mörgum tilvikum hafi eftirlitið kallað eftir gögnum og framkvæmt ítarlega greiningu á málsatvikum. „Kauphöllin leggur sérstaka áherslu á að hafa eftirlit með verðhreyfingum á síðasta viðskiptadegi ársins, sem og öðrum dögum sem geta verið mikilvægir við mat á virði verðbréfa. Hefur það eftirlit í mörgum tilvikum leitt til þess að óskað hefur verið eftir gögnum frá markaðsaðilum og framkvæmd ítarleg greining á málsatvikum,“ segir Baldur.

Hann segir ekki hægt að ræða einstaka tilvik. „Kauphöllin getur þó ekki greint frá niðurstöðu einstakra mála. Í þessu samhengi má þó benda á að frá hruni hefur hlutabréfaverð lækkað í fjórum tilvikum af sjö á síðasta viðskiptadegi ársins.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×