Innlent

Ráðherra sækir Kínverja heim

kolbeinn óttarsson proppé skrifar
Menntamálaráðherra segir mannréttindamál verða rædd með óbeinum hætti þar sem þau falli undir mennta- og menningarmál.
Menntamálaráðherra segir mannréttindamál verða rædd með óbeinum hætti þar sem þau falli undir mennta- og menningarmál. fréttablaðið/gva
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, er á leið í opinbera heimsókn til Kína. Kínversk stjórnvöld buðu ráðherra í heimsókn, en menntamálaráðherra Íslands sótti Kína síðast heim árið 2006. Fréttablaðið náði tali af ráðherra í Kanada, en þaðan liggur leiðin til Kína.

„Tilgangurinn er fyrst og fremst að funda með ráðherrum menntamála, vísindamála og menningarmála, ásamt því að verið er að skoða samvinnu á sviði vísinda á milli landanna, meðal annars það sem snýr að nýtingu jarðhita og öðrum slíkum verkefnum,“ segir Illugi.

Í fylgdarliði ráðherra verða starfsmenn ráðuneytisins, rektorar Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri, sem og Listaháskóla Íslands.

Illugi segir að ekki verði starfsfólk úr orkugeiranum með í þessari för. „En við munum meðal annars skoða hitaveituframkvæmdir sem verið hafa í Kína og samvinnu á vísindasviðinu, meðal annars í kringum jarðhitann.“

Spurður hvort hann hyggist ræða mannréttindamál við stjórnvöld í Kína segir Illugi eðlilegt að sú spurning vakni.

„Við munum auðvitað ræða menntamál og menningarmál og undir þá málaflokka falla auðvitað með beinum og óbeinum hætti mannréttindi. Öll umræða um þessa málaflokka er þá um leið líka umræða um mannréttindi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×