Innlent

Orkugerðin á leið í þrot – hráefnið urðað

Sífellt minna er um að sláturúrgangur skili sér í fullvinnslu og er hann frekar urðaður.
Sífellt minna er um að sláturúrgangur skili sér í fullvinnslu og er hann frekar urðaður. fréttablaðið/gva
Stjórn Orkugerðarinnar í Flóahreppi telur forsendur fyrir rekstri félagsins brostnar og sér ekki aðra leið en að sækja um greiðslustöðvun á meðan leiða er leitað til að endurskipuleggja fjárhag félagsins. Hráefnisskorti er um að kenna.

Fyrirtækið rekur verksmiðju í Flóahreppi til framleiðslu á fitu og mjöli úr lífrænum leifum svo sem sláturleifum og öðru lífrænu efni. Afurðir verksmiðjunnar eru fita og mjöl. Fitan hefur verið notuð til að knýja verksmiðjuna og til framleiðslu á lífdísil en mjölið hefur að mestu verið nýtt til landgræðslu með góðum árangri.

Hreinn Óskarsson
Guðmundur Tryggvi Ólafsson, stjórnarformaður Orkugerðarinnar, segir að eigið fé félagsins hafi verið jákvætt í árslok 2014 en greiðslustaðan slæm. Rekstur verksmiðjunnar hefur verið í járnum undanfarin ár. Tekjur af móttöku lífrænna leifa og sölu vara hafa verið á mörkum þess að bera rekstrarkostnað.

Grundvöllur verksmiðjunnar er að nýta afurðir sem annars er hent og vinna úr þeim verðmæti. Þannig var hugsunin að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum. Reiknað var með að félaginu myndi berast mun meira hráefni, enda lá fyrir að banna ætti með reglugerð urðun ómeðhöndlaðs sláturúrgangs í ársbyrjun 2009. „Af þessu hefur ekki orðið og úrgangur er urðaður víða um land,“ segir Guðmundur sem telur að inn í verksmiðjuna hafi borist hátt á fimmta þúsund tonn á ári.

Strangari kröfur torvelda jafnframt sölu á afurðum fyrirtækisins, en með Evróputilskipun voru innleiddar kröfur um að draga úr magni hráefna úr nautgripum. Ástæðan er ótti við kúariðu sem aldrei hefur greinst á Íslandi. Jafnframt er gerð krafa um brennslu þessara hráefna þrátt fyrir að kúariða hafi aldrei greinst á Íslandi, segir Guðmundur.

Orkugerðin er í eigu Sláturfélags Suðurlands (SOS), Sláturhússins á Hellu, Reykjagarðs, Sorpstöðvar Suðurlands og Ísfugls.

Á stjórnarfundi SOS í febrúar var samþykkt að leita eftir viðræðum við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og umhverfisráðherra til að ræða stöðu mála varðandi meðhöndlun sláturúrgangs í framtíðinni.

Hekluskógar nýttu 1.400 tonn af mjöli Sökum niðurskurðar á fjárveitingum til Hekluskógaverkefnisins undanfarin ár hefur litlu verið varið til kaupa á innfluttum tilbúnum áburði. Megináherslan hefur verið lögð á að nýta kjötmjöl frá Orkugerðinni, en árangur þeirrar áburðargjafar er eftirtektarverður og afar góður. Virðist nýting kjötmjölsins vera hagkvæmari lausn, bæði hvað varðar árangur í uppgræðslu sem og fjárhagslega, en undanfarin ár hefur verið dreift 1.400 tonnum af kjötmjöli.

„Það væri afar bagalegt ef verksmiðjan hætti störfum enda er þetta afar hagkvæmur áburður á rýrt land, sér í lagi vikra þar sem tilbúinn áburður hefur minni virkni en kjötmjölið. Ennfremur er nýting kjötmjöls til uppgræðslu afar hagkvæm lausn fyrir þjóðarbúið, nýtir innlendan efnivið sem annars færi á haugana, vinnslan fer fram með innlendu rafmagni og vinnslan er stutt frá stærstu eyðimörkum á Suðurlandi,“ segir Hreinn Óskarsson, verkefnisstjóri og skógarvörður á Suðurlandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×