Innlent

Mannvit gefur Orkuveitunni eftir 28 milljónir af ráðgjafareikningi

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Fréttablaðið 7. janúar síðastliðinn.
Fréttablaðið 7. janúar síðastliðinn.
Ráðgjafarfyrirtækið Mannvit og Orkuveita Reykjavíkur hafa samið um uppgjör vegna hönnunar gufulagnar frá Hverahlíð að Hellisheiðarvirkjun.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu 7. janúar síðastliðinn krafðist dótturfyrirtæki Orkuveitunnar, Orka náttúrunnar, þess að fá endurgreiddan kostnað því helsta ástæðan fyrir hækkun kostnaðaráætlunar væri „óvönduð vinnubrögð af hendi ráðgjafa við gerð upphaflegu kostnaðaráætlunarinnar“.

Páll Erland, framkvæmdastjóri ON, sagði í bréfi til Mannvits að „ítrekuð mistök við áætlanagerð“ væru óásættanleg og að ráðgjafarnir bæru bæði faglega og fjárhagslega ábyrgð á þeim. Mátti lesa úr bréfinu að í stað 79 milljóna króna sem bæst höfðu við kostnaðinn á nokkrum mánuðum væri ON aðeins tilbúið til að greiða 23 milljónir. Þarna skeikaði 56 milljónum króna. Nú hefur náðst samkomulag.

„Það var í síðasta mánuði að gengið var frá uppgjöri,“ segir Eiríkur Hjálmarsson, upplýsingafulltrúi OR. Samkvæmt því lækkar Mannvit upphaflega kröfu um 28,3 milljónir króna en samþykkt er að greiða 27,5 milljónir króna fyrir viðbótarverk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×