Innlent

Hættuleg fita í blóði barna eftir helgar

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Nammibar. Allir þurfa að hafa það notalegt og slappa af en ekki er nauðsynlegt að gera sér dagamun þrjá daga vikunnar. Þetta er mat stjórnanda rannsóknarinnar á áhrifum lífsstíls danskra barna um helgar.
Nammibar. Allir þurfa að hafa það notalegt og slappa af en ekki er nauðsynlegt að gera sér dagamun þrjá daga vikunnar. Þetta er mat stjórnanda rannsóknarinnar á áhrifum lífsstíls danskra barna um helgar. Vísir/Stefán
Talsvert hærra magn hættulegrar fitu og insúlíns mælist í blóði danskra barna á mánudögum en öðrum dögum vikunnar. Þetta eru niðurstöður rannsóknar vísindamanna við Kaupmannahafnarskóla á áhrifum sælgætisáts og svefn- og hreyfingarleysis um helgar hjá 800 börnum í þriðja og fjórða bekk grunnskólans.

Í frétt á vef danska ríkisútvarpsins er bent á að þessir þættir séu taldir auka hættu á hjarta- og æðasjúkdómum hjá fullorðnum. Haft er eftir Mads Fiil Larsen, stjórnanda nýju rannsóknarinnar, að ekki sé jafnljóst hvaða áhrif þetta hafi á heilsu barna. Hann segir þetta slæmt tákn en ekki sé hægt með vissu að segja hversu slæmt það er eða hvaða áhrif það hafi á heilsu barna eftir 30 til 40 ár.

„Við höfum hins vegar ekki efni á því að bíða og sjá hvað verður,“ segir hann.

Rannsóknin var gerð á 800 börnum í þriðja og fjórða bekk grunnskóla.
En þótt vísindamaðurinn sé á þeirri skoðun að það sé neikvætt hversu mikil áhrif lífsstíll þeirra um helgar hefur þá er það ekki mat hans að börn eigi að sleppa því að borða helgarnammi eða kúra um helgar.

„Ég held að allir þurfi að hafa það notalegt og slappa af en við erum að taka upp lífsstíl þar sem haldið er upp á helgina þrjá daga vikunnar með öllu sem því tilheyrir. Mér finnst að maður þurfi að íhuga þetta og gera sér dagamun bara í einn eða tvo daga í viku í staðinn,“ segir Larsen í viðtali við danska ríkisútvarpið.

Rannsóknin tók til barna úr öllum stéttum og með alls konar holdafar. Rannsökuð voru yfir tvö þúsund blóðsýni úr börnunum. Að sögn Larsens er ekki hægt að segja að óhollur lífsstíll komi verr niður á einhverju einum hóp en öðrum. Vandamálið eigi við um alla hópana.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×