Innlent

Samþykkti breytingu án aðkomu nefndar

Sveinn Arnarsson skrifar
Nýsamþykkt miðbæjarskipulag gengur út á að opna svæðið og á húsið að víkja. Oddviti Samfylkingarinnar bæði teiknaði skipulagið þar sem húsið á að víkja sem og að teikna breytingar á húsinu.
Nýsamþykkt miðbæjarskipulag gengur út á að opna svæðið og á húsið að víkja. Oddviti Samfylkingarinnar bæði teiknaði skipulagið þar sem húsið á að víkja sem og að teikna breytingar á húsinu. Fréttablaðið/Auðunn
Skipulagsstjóri Akureyrarbæjar, Pétur Bolli Jóhannesson, samþykkti uppbyggingu og breytingu á húsi við göngugötuna á Akureyri en í nýsamþykktu miðbæjarskipulagi á húsið að víkja. Breytingin á húsinu fór ekki fyrir skipulagsnefnd né heldur í grenndarkynningu. Oddviti Samfylkingarinnar á Akureyri, sem er arkitekt, vann bæði að hönnun miðbæjarskipulagsins sem og að teikna breytingar á húsinu sem á að víkja.

Húsið, sem nefnist Braunshús og stendur við Hafnarstræti 106, á að víkja samkvæmt samþykktu miðbæjarskipulagi Akureyrar. Segir í skipulaginu að tilgangurinn sé að koma á gönguás í gegnum miðbæinn og húsið þurfi að víkja fyrir þessari „þungamiðju skipulagstillögunnar“, eins og hún er kölluð.

Logi Már Einarsson
Skipulagsstjóri segir málið ekki hafa átt erindi við nefndina.

Logi Már Einarsson, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar, vann að hönnun miðbæjarskipulagsins sem var samþykkt þann 6. maí 2014. Tuttugu dögum síðar, eða fjórum dögum fyrir sveitarstjórnarkosningar, sendir arkitektastofa Loga Más uppdrátt af breytingum á téðu húsi. Þann 23. október síðastliðinn samþykkti svo skipulagsstjóri breytingarnar á húsinu án þess að bera það undir skipulagsnefnd.

„Það er ekki þörf á því að að fara með málið fyrir nefndina. Ég hef fullnaðarheimild til að klára byggingarmál og þetta átti ekkert erindi í skipulagsnefnd,“ segir Pétur Bolli skipulagsstjóri. „Það er ekki verið að gera breytingar á húsinu. Sótt var um byggingarleyfi eins og hvert annað byggingarmál sem ég tók afstöðu til.“

Margrét Kristín Helgadóttir
„Veigamikil breyting á húsi sem samkvæmt skipulagi á að víkja“

Margrét Kristín Helgadóttir, bæjarfulltrúi Bjartrar framtíðar, telur hins vegar að hér sé ekki um einhverjar lítilsháttar breytingar á húsinu að ræða. Telur hún eðlilegt að skipulagsnefnd bæjarins fjalli um málið í stað þess að embættismaður taki ákvörðunina fram hjá nefndinni. „Þetta er veigamikil breyting á húsi sem samkvæmt skipulagi á að víkja og mjög mikilvægt að hin pólitískt skipaða skipulagsnefnd sé inni í málinu og standi að baki ákvörðun skipulagsstjóra,“ segir Margrét Kristín.

Hún telur óheppilegt að Logi Már hafi komið sér í þessa stöðu. „Þetta er vissulega staða sem ég myndi sjálf ekki kæra mig um að vera í. Ég hugsa að bæjarbúar vildu gjarnan heyra hvernig hann lítur á málið, hvort hann telji þetta sjálfur óheppilegt eftir á að hyggja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×