Innlent

Skipulagssamkeppni um byggð á lóð RÚV

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Magnús Geir Þórðarson við undirritun samkomulagsins í gær.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Magnús Geir Þórðarson við undirritun samkomulagsins í gær. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
Efna á til skipulagssamkeppni um íbúðabyggð með leigu- og séreignaríbúðum á lóðinni Efstaleiti 1. Frá þessu var greint í gær þegar Reykjavíkurborg og Ríkisútvarpið gengu frá samkomulagi um lóðarréttindi og byggingarétt á svæðinu.

Gert er ráð fyrir blönduðu búsetuformi og mun Reykjavíkurborg ráðstafa 20 prósentum af samþykktum íbúðum til uppbyggingar leigumarkaðar en þó aldrei fleiri en 40 íbúðum. Félagsbústaðir hf. munu hafa kauprétt á markaðsverði, fyrir allt að fimm prósentum á lóðinni fyrir félagslegt leiguhúsnæði. Skipulagssamkeppnin nær til 59 þúsund fermetra svæðis.

Jafnframt var undirritaður leigusamningur um hluta Útvarpshússins. Reykjavíkurborg tekur á leigu um 2.600 fermetra, það er 4. og 5. hæð auk hluta af 2. hæð. Þjónustumiðstöð Laugardals og Háaleitis fær nýtt húsnæði fyrir starfsemi sína í Útvarpshúsinu og er gert ráð fyrir að þjónustumiðstöðin, sem nú er í húsnæði við Síðumúla, flytji inn í maí. Reykjavíkurborg mun gera breytingar á húsnæðinu til að mæta þörfum þjónustumiðstöðvarinnar.

Í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að leigusamningurinn sé til 15 ára og að húsaleiga sé 4,9 milljónir á mánuði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×