Innlent

Annríki á Barnaspítalanum

ingibjörg bára sveinsdóttir skrifar
ragnar bjarnason
ragnar bjarnason
Mikið annríki hefur verið á bráðamóttöku Barnaspítala Hringsins að undanförnu vegna umgangspesta og annarra veikinda barna. „Inflúensan er á fullu í samfélaginu. RS-veiran og önnur veikindi hrjá einnig börnin,“ segir Ragnar Bjarnason, yfirlæknir barnalækninga á Barnaspítalanum.

Að meðaltali eru komur á barnaspítalann um 50 á dag að vetrarlagi en á mánudaginn voru komurnar 67, að því er Ragnar greinir frá. „Þetta var mjög annasamur dagur og biðtíminn verður óhjákvæmilega langur þegar við erum að forgangsraða veikum börnum. En börnin sem komið er með eru ekki öll mikið veik. Það væri gott að fólk leitaði annað með minniháttar vandamál, eins og til dæmis eyrnabólgu. Það er hægt að leita á heilsugæsluna, læknavaktina og barnalæknaþjónustuna.

Bráðamóttakan hér er í raun tilvísunarmóttaka en það er langt frá því að allir komi með tilvísun. Það er of algengt að fólk komi hingað með minniháttar vandamál án þess að hafa leitað annarra úrræða áður.“

Ragnar segir deildina stútfulla auk þess sem börn séu á gjörgæslu. Álagið sé þess vegna mjög mikið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×