Innlent

Meðalheimili með milljón í yfirdrátt

kolbeinn óttarsson proppé skrifar
Margur hefur gengið upp að hnjám í baráttu sinni við að lækka skuldirnar. Mikill akkur er í því að lækka yfirdráttarheimildir, enda bera þau lán háa vexti.
Margur hefur gengið upp að hnjám í baráttu sinni við að lækka skuldirnar. Mikill akkur er í því að lækka yfirdráttarheimildir, enda bera þau lán háa vexti. fréttablaðið/daníel
Heildarupphæð yfirdráttarlána landsmanna árið 2014 var 85,9 milljarðar króna. Það þýðir að að meðaltali skuldar hvert heimili um 1,1 milljón króna í yfirdráttarlán. Miðað við hefðbundna vexti yfirdráttarlána, 12,5 prósent, greiða landsmenn árlega tæplega 11 milljarða króna í vexti af yfirdráttarlánum.

Yfirdráttarlánin hafa heldur verið að hækka undanfarin ár, en hafa verið á milli 80 og 90 milljarðar síðan í desember 2011. Sé fjölda heimila deilt í upphæðina, til að finna út meðaltalið, kemur í ljós að árið 2010 var meðalyfirdráttarheimild hvers heimilis um 937 þúsund.

„Við höfum fylgst með þessum tölum og ekki lesið úr þeim neina afgerandi þróun síðustu árin. Þær virðast sitja á svipuðum stað og því höfum við ekki rýnt þær sérstaklega,“ segir Jón Bjarki Bentsson, hjá greiningardeild Íslandsbanka.

Svanborg Sigmarsdóttir
Svanborg Sigmarsdóttir, upplýsingafulltrúi umboðsmanns skuldara, segir rétt að vera vakandi yfir þessum tölum.

„Það er ofboðslega dýrt að vera með yfirdráttarheimild. Að yfirdráttarheimild sé að jafnaði í kringum milljón á heimili, er mjög dýrt. Það er spurning hvort fólk getur borgað niður yfirdráttarheimildina, eða hvort það er ekki með nægilegar tekjur til framfærslu.“

Umboðsmaður skuldara hefur bent fólki á að ef sóst er eftir því að borga yfirdráttinn niður bjóði flestir bankar betri kjör en á hefðbundnum yfirdráttarheimildum.

„Fólk getur þannig lækkað vaxtakostnaðinn töluvert með því að semja um niðurgreiðslu á yfirdrætti á ákveðnum tímapunkti.“

Kortavelta hefur heldur aukist undanfarin ár, sem bendir til þess að einkaneysla heimilanna sé að aukast.

„Kreditkortanotkun gefur ágætis vísbendingu um þróun einkaneyslu heimilanna og þar hefur verið myndarlegur vöxtur, sérstaklega í erlendum færslum,“ segir Jón Bjarki.

Svanborg segir að velta debetkorta sé nokkuð stöðug, um 120 til 140 þúsund á mánuði. Hins vegar komi toppur í desember og í sumarfrísmánuðunum sem rími við hækkun yfirdráttarheimildar á þeim tíma.

„Þetta sýnir okkur að fólk er ekki almennt að undirbúa sig undir stór útgjöld, eins og jól og sumarfrí.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×