Innlent

Nýta má þrjár holur af fjórum

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Borhola í Eldvörpum við Grindavík. Borholur í 2-2,5 kílómetra dýpt eru sagðar afkastamestar í rannsókn ÍSOR.
Borhola í Eldvörpum við Grindavík. Borholur í 2-2,5 kílómetra dýpt eru sagðar afkastamestar í rannsókn ÍSOR. Fréttablaðið/GVA
Þrjár af hverjum fjórum borholum á háhitasvæðum reynast nýtanlegar. Þetta kemur fram í nýrri úttekt sem unnin var fyrir Orkustofnun af Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR).

Fram kemur í samantekt um rannsóknina á vef Orkustofnunar að afkastageta nýtanlegra holna sé að jafnaði 6,7 megavött í raforku. Nýtanlegar holur í gagnasafninu eru 158 talsins. Sú öflugasta er talin hafa gefið 35 megavött í rafmagni, en meðalafl allra 213 boraðra holna er hins vegar sagt 4,9 megavött í rafmagni.

„Í rannsókninni er skoðað hversu margar holur hafa verið boraðar á hverjum stað áður en árangur telst viðunandi. Niðurstaðan sýnir að um fjörutíu prósent líkur eru á árangi við fyrstu holu, sextíu prósent að jafnaði á fimmtu holu og 74 prósent á þeirri fimmtándu,“ segir í umfjöllun Orkustofnunar.

Algengasta ástæða fyrir misheppnuðum vinnsluholum er sögð vera of lágur þrýstingur, en slíkt er sagt koma upp í um tíu prósentum tilvika.

„Aðrar ástæður eru vandræði við borun sex prósent, hitastig ekki nógu hátt fjögur prósent, þétting of mikil þrjú prósent og önnur þrjú prósent svara til holna sem ekki ná niður í jarðhitageyminn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×