Innlent

Hæðst að Jóni Steinari í nýju Lögmannablaði

Jakob Bjarnar skrifar
Þyrí hefur ritstjóraferil sinn með látum og ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur.
Þyrí hefur ritstjóraferil sinn með látum og ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur.
Í nýju tölublaði Lögmannsins er að finna efnisþátt þar sem Jón Steinar Gunnlaugsson lögmaður, og fyrrverandi hæstaréttardómari, er dreginn sundur og saman í háði. Er látið sem svo að þarna sé greint frá Merði lögmanni, og birt brot úr óútkominni ævisögu hans. Enginn sem til þekkir velkist hins vegar í vafa um að þarna er spjótum beint að Jóni Steinari, sem nýverið sendi frá sér bókina „Í krafti sannfæringar – Saga lögmanns og dómara“.

Hæstiréttur óttast lögfræðilega hæfileikana

Blaðið segist hlakka til útgáfu bókar „Marðar“, sem heitir „Enginn er spámaður í sínu föðurlandi“ og hvetur félagsmenn til að verða sér út um eintak. Þarna segir til dæmis: „Hæstiréttur Íslands hefur alla tíð óttast lögfræðilega hæfileika mína. Hef ég orðið var við að dómarar beinlínis líta undan og sökkva í sætum sínum þegar ég er kominn af stað í málflutningi. Það er vegna þess að þeir finna til smæðar sinnar lögfræðilega við það að hlusta á ræður mínar. Dómararnir hafa fengið útrás fyrir þessa minnimáttarkennd sína í minn garð með því að dæma mér ítrekað í óhag,“ segir í Lögmannablaðinu en lesa má kaflann allan hér fyrir neðan.

Þar er helst að sjá að skoðun höfundar sé sú að Jón Steinar sé fremur ánægður með sig, jafnvel svo að það hálfa væri nóg.

Glatt á hjalla hjá nýrri ritstjórn.Skjáskot úr Lögmannablaðinu.
Nýr ritstjóri

Lögmannablaðið er gefið út af Lögmannafélagi Íslands og stendur á gömlum merg. Um er að ræða 21. árgang og lesa flestir lögmenn blaðið. Þyrí Steingrímsdóttir hjá Acta lögmannsstofu er nýr ritstjóri og tók hún við af Árna Helgasyni hdl. hjá Cato lögmönnum. Eins og segir í Lögmannablaðinu þá hefur Þyrí setið í ritnefnd „ásamt þeim Hauki Erni Birgissyni hrl. hjá Íslensku lögfræðistofunni og Ingva Snæ Einarssyni hdl. hjá Lex síðan í ársbyrjun 2012 en þær Eva Halldórsdóttir hdl. hjá Lögmönnum Lækjargötu og Guðríður Lára Þrastardóttir hdl. hjá Völvu lögmönnum koma nýjar inn.“

Af Merði lögmanni

Umræddur kafli í Lögmannablaðinu er eftirfarandi, og greinilegt að húmoristi heldur um penna. Hver sá er veit Vísir hins vegar ekki. En, víst er að skrifin hafa fallið í góðan jarðveg meðal lögmanna og þannig vekur Sveinn Andri Sveinsson lögmaður sérstaka athygli á þessari frásögn og fer ekki á milli mála að honum er skemmt.

Mörður lögmaður sendi Lögmannablaðinu á dögunum eintak af óútkominni ævisögu sinni, „Enginn er spámaður í sínu föðurlandi“ en í henni fer Mörður ítarlega yfir langan feril sinn sem lögmaður. Blaðið hefur fallist á að birta valda kafla úr bókinni.

Úr 2. kafla – Uppvaxtarárin

„Á leikskóla lenti ég miklum deilum við samnemendur mína. Þrír þeirra, sem ég ætla að sýna þá kurteisi að nafngreina ekki, héldu því fram að þeir ættu rétt á að stýra gulu leikfangagröfunni sem var í sandkassanum. Engin gögn studdu þessa fullyrðingu þremenninganna. Samt héldu þeir áfram að nota gröfuna, dag eftir dag og moka sandinum fram og til baka líkt og þeir ættu hann og væru yfir lög og reglur hafnir. Ég fékk stundum á tilfinninguna að þessir menn vissu ekki hvað réttarríkið væri. Þegar yfirstjórn leikskólans var að minni ósk kölluð saman vegna málsins vannst sá merki sigur að þremenningarnir voru færðir yfir í rólur að hluta og látnir vega salt að hluta. Ég fékk gröfuna fyrir mig og mokaði í mun stærri hól en þremenningarnir höfðu náð að gera áður. Ég hef nú ekki erft þetta sérstaklega við þá síðan, enda er ég stærri maður og umburðarlyndari en svo. En þetta var þeim auðvitað til mikillar minnkunar.“

Enginn sem til þekkir velkist í vafa um að Mörður er í raun Jón Steinar.
Úr 6. kafla – Hæstiréttur

„Hæstiréttur Íslands hefur alla tíð óttast lögfræðilega hæfileika mína. Hef ég orðið var við að dómarar beinlínis líta undan og sökkva í sætum sínum þegar ég er kominn af stað í málflutningi. Það er vegna þess að þeir finna til smæðar sinnar lögfræðilega við það að hlusta á ræður mínar. Dómararnir hafa fengið útrás fyrir þessa minnimáttarkennd sína í minn garð með því að dæma mér ítrekað í óhag. Ég hef árum saman þurft að segja við menn sem leita til mín: Ekki koma til mín, ekki láta reiði Hæstaréttar bitna á þér og máli þínu. En fólk kemur samt. Það segir: Mörður, ég treysti engum öðrum en þér fyrir þessu máli. Alþjóð veit hve oft Hæstiréttur hefur haft rangt fyrir sér í málum sem ég hef flutt. Það er mjög miður. En það sem mér hefur fundist verst við þá sem hafa dæmt í Hæstarétti er að þeir gera sér enga grein fyrir takmörkunum sínum og hafa oftrú á hæfileikum sínum.“



Úr 9. kafla – Ritdeilur sem ég hef tekið þátt í

„Ég hef verið seinþreyttur til vandræða og er mikill mannasættir. En einstaka sinnum hef ég þó neyðst til þess að drepa niður penna til þess að leiðrétta villur og misskilning í opinberri umræðu. Tel ég því rétt að birta allar greinar sem ég hef nokkurn tímann skrifað í dagblöð og tímarit og gera stuttlega grein fyrir hverri og einni þeirra. Stundum hafa menn ekki verið tilbúnir að horfast í augu við eigin mistök eða rangfærslur, þar sem þeir eru svo blindaðir af eigin ágæti og þá hef ég neyðst til að setja ofan í við þá aftur og aftur, allt þar til þeir hætta að skrifa á móti. Þeir hætta allir á endanum að reyna að svara, því þeir vita að þeir hafa rangt fyrir sér. Annars sæki ég ekki í deilur og hef ekki áhuga á að rífast við nokkurn mann og hef aldrei haft. Hins vegar hef ég litið á það sem borgaralega skyldu mína að benda á sannleikann í umræðunni. Undan henni get ég ekki vikist. Finnst kannski einhverjum að ég eigi ekki að gegna skyldu minni sem þegn og borgari í þessu samfélagi? Lítur einhver svo á að það eigi að sleppa því að segja sannleikann?“

Úr 11. kafla – Tillögur til úrbóta fyrir Hæstarétt

„Tel ég því einboðið að leiða ætti alla dómara Hæstaréttar fram á Lækjartorg, láta þá standa þar í hnapp, lúpulega, svo almenningur geti horft á þá vandlætingaraugum og ef til vill hent í þá ávöxtum og grænmeti fyrir það að hafa dæmt aftur og aftur vitlaust í málum sem ég hef flutt. Íslenska þjóðin mun án efa taka slíku tækifæri fagnandi og fjölmenna og gæti viðburður sem þessi verið mikilvægt skref í að hreinsa loftið.“ Úr síðasta kafla bókarinnar – Lokaorð „Með árunum hef ég öðlast meiri auðmýkt og þroska og lært betur að meta lífið og tilveruna. Maður spyr sig oftar og oftar grundvallarspurninga um eitt og annað. T.d. velti ég því mikið fyrir mér hvernig þeim stóra fjölda manna, sem hafa haft svo ítrekað rangt fyrir sér í deilum við mig, líður. Hvernig horfast þeir í augu við sjálfa sig? Það getur ekki verið auðvelt hlutskipti. En öll él styttir upp um síðir, líka hjá þessum ágætu mönnum, þrátt fyrir framferði þeirra sem hefur auðvitað verið fyrir neðan allar hellur.“

Blaðið hlakkar til útgáfu bókarinnar og hvetur félagsmenn til að verða sér út um eintak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×