Innlent

Gildi skerðir lífeyrisréttindin

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Árni Guðmundsson, sem er framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs, segir lækkun á lífeyrisréttindum alfarið til komna vegna ákvörðunar stjórnvalda.
Árni Guðmundsson, sem er framkvæmdastjóri Gildis lífeyrissjóðs, segir lækkun á lífeyrisréttindum alfarið til komna vegna ákvörðunar stjórnvalda. Fréttablaðið/Heiða
Til stendur að skerða lífeyrisréttindi sjóðsfélaga hjá Gildi lífeyrissjóði vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að lækka örorkuframlag til sjóðsins.

Tillaga stjórnar Gildis þar að lútandi verður tekin fyrir á aðalfundi í dag.

Árni Guðmundsson, framkvæmdastjóri Gildis, segir í samtali við Fréttablaðið að örorkuframlagið hafi verið nýtt til að hækka lífeyrisgreiðslur og að það hafi undanfarin ár aukið réttindi fólks um 4,5 prósent.

Lækkun framlagsins nú verði til þess að í stað 4,5 prósenta hækkunar lífeyris hjá sjóðnum verði hún bara 4,2 prósent.

„Svo höfum við líka áhyggjur af því að stjórnvöld haldi sig við áform um að fella þetta gjald algjörlega niður á fimm árum,“ segir Árni.

Lækkunin fari algjörlega gegn áformum stjórnvalda um að jafna lífeyrisréttindi landsmanna. Þá auki hún á mismunun sjóða, því hún bitni ekki á opinberum lífeyrissjóðum þar sem ríkið tryggi greiðslur.

„Okkur finnst skjóta mjög skökku við að þetta skuli lagt á sjóði verkafólks og sjómanna sem kannski þurfa fremur en aðrir að bera þessa örorkubyrði,“ segir Árni.

Um leið segir Árni alvarlegt að horfið sé frá samkomulagi sem verið hafi hluti af kjarasamningum 2005 og bundið í lög 2006. „Það er verið að svíkja núna,“ bætir hann við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×