Innlent

Yngri bróður haldið sofandi næstu daga

Heimir Már Pétursson skrifar
Níu ára dreng sem féll í foss í Læknum í Hafnarfirði í gær verður haldið í öndunarvél næstu daga. Tólf ára bróðir hans sem einnig féll í lækinn var útskrifaður af Landspítalanum í dag en hann komst fljótlega til meðvitundar eftir slysið í gær.

Drengirnir eru bræður frá Tálknafirði. Lögregla rannsakar tildrög þess að þeir lentu báðir í Læknum í gærdag þar sem þeir festust við foss í læknum. Óvenju straumhart var í fossi læksins í gær en þó er ekki vitað til þess að slys hafi orðið þarna áður.

Eldri drengurinn, sem er tólf ára,  komst fljótt til meðvitundar eftir að bræðrunum var bjargað úr sjálfheldunni en samkvæmt upplýsingum frá Landsspítalanum felst hluti af meðferðar yngri bróðursins,  sem er níu ára,  í því að halda honum sofandi næstu daga.

Það var ellefu ára systir drengjanna sem hringdi eftir aðstoð en hún var með þeim þegar slysið átti sér stað. Meðal þess sem lögregla rannsakar er hvort drengirnir hafi verið að reyna að ná í bolta í Læknum þegar slysið varð.

Lögregla segir rannsókn málsins taka nokkurn tíma þar sem m.a. þurfi að ræða við ung vitni að slysinu. Lónið við fossinn var tæmt í dag og vinnur Hafnarfjarðarbær að öðrum ráðstöfunum til að draga úr slysahættu við Lækinn.


Tengdar fréttir

Öðrum haldið sofandi í öndunarvél

Ungur drengur liggur þungt haldinn á Landspítalanum eftir alvarlegt slys í læknum í Hafnarfirði í dag. Þrír voru fluttir á slysadeild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×