Erlent

Allt bendir til að enginn flokkur nái meirihluta á spænska þinginu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Pablo Iglesias, leiðtogi Podemos.
Pablo Iglesias, leiðtogi Podemos. vísir/getty
Þegar tæplega 70 prósent atkvæða hafa verið talin í spænsku þingkosningunum hefur vinstriflokkurinn Podemos hlotið 20,4 prósent atkvæða. Má það teljast mikill sigur fyrir flokkinn sem stofnaður var árið 2014.

Flokkur Mariano Rajoy, forsætisráðherra, tapar um 50 þingsætum og er nú með 28 prósent atkvæða. Þar á eftir kemur Sósíalistaflokkurinn með tæplega 23 prósent atkvæða og í fjórða sæti er hægriflokkurinn Ciudadanos með rúmlega 13 prósent atkvæða.

Það lítur því allt út fyrir að enginn flokkur nái meirihluta á spænska þinginu en 176 þingsæti þarf til að ná meirihluta. Þjóðarflokkurinn er nú með 124 sæti, sósíalistar með 95 sæti og Podemos með 69 sæti.

Því þyrfti að mynda samsteypustjórn eða minnihlutastjórn. Stjórnmálaskýrendur telja ýmsa möguleika í stöðunni, til dæmis hægristjórn Þjóðarflokksins og Ciudadanos eða vinstristjórn Sósíalista, Podemos og annarra smærri flokka.

Efnahagsástandið á Spáni, spillingarmál og barátta Katalóníu fyrir sjálfstæði er á meðal þess sem sett var á oddinn í kosningabaráttunni.


Tengdar fréttir

Uppstokkun á Spáni

Gömlu stjórnmálaflokkunum á Spáni er spáð miklu tapi í þingkosningunum á morgun. Umbyltingarhreyfingin Podemos virðist þó ekki ætla að ná því gífurlega fylgi sem lengi vel stefndi í. Langvarandi efnahagskreppa breytir myndinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×