Innlent

Heimilislaus Reykvíkingur fann stolinn síma og skilaði honum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Athvarfið er staðsett á Njálsgötu 74.
Athvarfið er staðsett á Njálsgötu 74. vísir/anton brink
„Ég tók eftir því þegar ég var að fara heim að það hafði einhver farið ofan í töskuna mína og tekið þar símann minn, kortið mitt og einnig peninga sem ég var með á mér,“ segir Heiður Björk Óladóttir, 21 árs nemi í Reykjavík og eigandi netverslunarinnar Aktív Iceland. Hún varð fyrir því óláni að vera rænd á skemmtistaðnum Austur í október í fyrra.

„Það fyrsta sem ég geri er að fara í símann hjá vinkonu minni, sem var með appið Find my iPhone, og læsi símanum mínum. Þá er aðeins hægt að hringja í símann. Síðan tala ég við lögreglumann niðri í bæ og hann sagði að það eina sem ég gæti gert væri að fara á lögreglustöðina á mánudeginum og kæra atvikið.“

Heiður fór því heim að sofa og var að vonum nokkuð svekkt.

„Þegar ég vakna fer ég á síðuna hjá Find my iPhone til þess að athuga hvort það sé kveikt á símanum og svo var. Ég sé að síminn er staðsettur niðri í bæ og einhvers staðar nálægt Njálsgötu. Þá hringi ég strax í lögregluna og fæ að tala við varðstjóra. Hann segir mér að það sé lítið hægt að gera því lögreglan hafi ekki heimild til þess að fara inn í hús til að leita að símum.“

Fór sjálf að leita

Hún ákvað næst að fara í bæinn ásamt bróður sínum til þess einfaldlega að leita að símanum.

„Ég byrja bara á því að hringja á fullu í símann minn þarna nálægt til þess að athuga hvort ég heyri í honum. Það gekk auðvitað ekkert en þegar við erum alveg við það að gefast upp þá stígur kona út úr húsi og spyr okkur einfaldlega hvort við séum að leita að síma.“

Heiður svaraði því strax játandi.

„Þá hafði sem sagt heimilislaus maður fundið símann minn á götunni, en kortið mitt var í hulstri við símann og var það einnig á sínum stað. Peningarnir voru aftur á móti horfnir og ég bjóst svo sem við því. Þau voru búin að reyna hafa samband við mig á Facebook en skilaboðin fóru beint í ruslpóst og ég sá þau ekki fyrr en seinna.“

Síðar kom í ljós að maðurinn hafði gist í athvarfi fyrir heimilislausa á Njálsgötu 74. Heiður náði ekki tali af manninum en hefur alltaf hugsað vel til hans frá atvikinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×