Innlent

Réttarfarsnefnd andvíg tillögum um skipan dómara

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
Réttarfarsnefnd telur tillögur um breytingar á fyrirkomulagi við skipan dómara við Hæstarétt Íslands fela í sér í sér óæskilegt afturhvarf til fyrri tíma. Þær fari í bága við meginsjónarmið um skipan dómara sem fram hafa komið hjá alþjóðlegum stofnunum og reglur nágrannaríkjanna.

Nefnd sem innanríkisráðherra skipaði í ágúst 2013 til að semja reglur um upptöku millidómstigs og fyrirkomulag við skipan dómara skilaði ráðherra tillögum sínum í síðasta mánuði. Nefndin gerir meðal annars tillögu um breytingu á fyrirkomulagi við skipan dómara við Hæstarétt Íslands en verði þær að veruleika kæmi ráðherra til með að hafa meira vald við skipan dómara en nú er. Innanríkisráðherra óskaði eftir umsögn réttarfarsnefndar um tillögurnar, en nefndin hefur það hlutverk að vera ráðherra til ráðgjafar á sviði réttarfars. Í henni sitja:

• Eiríkur Tómasson, dómari við Hæstarétt Íslands, sem jafnframt er formaður,

• Hjördís Hákonardóttir, fyrrverandi dómari við Hæstarétt Íslands,

• Ása Ólafsdóttir, dósent við lagadeild Háskóla Íslands,

• Ragnheiður Harðardóttir, dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og

• Stefán Már Stefánsson, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands.

• Starfsmaður nefndarinnar er Benedikt Bogason, dómari við Hæstarétt Íslands.

Óhætt er að segja að réttarfarsnefnd geri alvarlegar athugasemdir við tillögur nefndarinnar. Í umsögn hennar, sem fréttastofa hefur undir höndum, er meðal annars vísað til tilmæla ráðherranefndar Evrópuráðsins um sjálfstæði dómenda. Þar komi fram að ákvarðanir um skipan dómara eigi að vera byggðar á lögbundnum hlutlægum sjónarmiðum. Þá skuli yfirvald það sem taki ákvörðun um þetta vera óháð bæði ríkisstjórninni og löggjafarvaldinu.

Þá segir í umsögn réttarfarsnefndar:

„Af framansögðu er ljóst að frumvarpsdrögin fela í sér stefnubreytingu og óæskilegt afturhvarf til fyrri tíma. Sú ráðagerð fer bæði í bága við þau meginsjónarmið um skipun dómara sem fram hafa komið hjá alþjóðlegum stofnunum og þær reglur nágrannaríkjanna um það efni sem raktar hafa verið hér að framan.“

Þá bendir réttarfarsnefnd auk þess á að tillagan sé að mestu órökstudd og sé ekki á neinn hátt forsenda þess að komið verði á millidómstigi hér á landi.

„Af þeim sökum og í þeim tilgangi að skapa sem víðtækasta samstöðu um aðkallandi breytingar á dómskerfinu lýsir réttarfarsnefnd sig andvíga tillögunni, enda eru aðeins fimm ár liðin frá því að núverandi tilhögun á skipun dómara var tekin upp,“ segir í umsögn réttarfarsnefndar.


Tengdar fréttir

Óttast vanbúið millidómstig

„Ég óttast að ef menn fara í þann leiðangur þá að þá verði það ekki gert af nægilegum efnum og þetta nýja millidómstig verði þá vanbúið hvað varðar fjármuni og mannafla.“

Frumvarpi um Landsrétt skilað til innanríkisráðherra

Nefnd um millidómstig hefur skilað frumvarpsdrögum til Ólafar Nordal innanríkisráðherra. Héraðsdómum verður almennt áfrýjað til Landsréttar en Hæstiréttur sinni aðeins veigamiklum og fordæmisgefandi málum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×