Innlent

Símar á sjúkrahúsinu á Akureyri voru óvirkir í nótt

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Málið litið alvarlegum augum, að sögn framkvæmdastjóra lækninga á spítalanum.
Málið litið alvarlegum augum, að sögn framkvæmdastjóra lækninga á spítalanum. Vísir/Auðunn
„Það varð enginn skaði af þessu en vissulega stafaði ógn af þessu,“ segir Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á sjúkrahúsinu á Akureyri. Símasambandslaust var í nánast alla nótt á sjúkrahúsinu vegna bilunar hjá Símanum. 



Málið er litið alvarlegum augum. „Við getum sagt að þetta er ógn við öryggi af því að kerfið okkar er byggt upp á því að þeir sem eru á bakvöktum, skurðlæknar,  svæfingalæknar , fæðingarlæknar og aðrir eru með gsm-síma og stundum þarf að kalla í þá með hraði,“ segir Sigurður sem á von á því að fá skýringar á biluninni á fundi með forsvarsmönnum Símans í dag.



„Við náðum ekki í neinn fyrr en í morgunsárið og þá fóru þeir í að laga þetta. Það tók alveg klukkutíma,“ segir hann. „Við björguðum þessu til bráðabirgða með því að láta lykilmenn hafa tetra-stöðvar. Þær virkuðu.“

Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir að sjúkrahúsið haif ekki verið sambandslaust; aðeins hafi verið bilun í 3G neti. „Fastlínukerfið virkaði sem skyldi sem og 2G og 4G kerfi Símans,“ segir hún í skriflegum skilaboðum til fréttastofu.

Þá segir hún að hægt hafi verið að ná í starfsmenn Símans á meðan bilunin átti sér stað. „Að sjálfsögðu er hægt að ná í Símann allan sólarhringinn í neyðartilvikum,“ segir hún. „Þá hefur sjúkrahúsið tengilið sinn á Akureyri sem er boðinn og búinn að aðstoða.“

Ástæða bilunarinnar var uppfærsla sem átti sér stað á 3G netinu en hún olli því að ekki var hægt að taka á móti símtölum í síma sem tengjast netinu.

Uppfært klukkan 14.38 með viðbrögðum Símans.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×