Innlent

Gefur svartsýnisspám langt nef

Guðrún Ansnes skrifar
Trausti telur þá sem spá endalaust vondu fá lítið annað en svoleiðis veður í fangið.
Trausti telur þá sem spá endalaust vondu fá lítið annað en svoleiðis veður í fangið. fréttablaðið/vilhelm
Trausti Jónsson veðurfræðingur segir ekki tímabært fyrir landsmenn að sökkva sér í svartsýnisböl vegna ómögulegrar veðurspár í sumar.

„Það er alls ekki bara rigning og ömurlegheit í öllum kortum þó svo að einhver veðurkort sýni okkur það núna,“ segir Trausti og bendir á að skoða þurfi betur kortið frá Evrópureiknimiðstöð sem farið hefur sem eldur um sinu á samfélagsmiðlunum upp á síðkastið.

Hafa Íslendingar keppst við að bölva veðurspánni sem þar birtist, enda töluverður veðurleiði í fólki eftir kaldan vetur.

Trausti Jónsson
„Fyrir utan þá helstu staðreynd að ekki er hægt að spá raunverulega fyrir um veðrið í sumar að svo stöddu,“ bendir Trausti á.

Að sama skapi hrekur hann það bölsýnisraus sem fylgt hefur fréttum af lágum sjávarhita suðvestur í hafi, slíkt sé ekki staðfesting á slæmu sumri.

Hann tekur þó skýrt fram að hann sé ekki að spá nokkrum hlut. 

„Ég er ekkert að segja að sumarið verði sólríkt, svo er nú ekki, heldur vil ég einungis benda á að óþarfi er að afskrifa sumarið strax,“ segir Trausti og bætir við: 

„Þeir sem bíta í sig vonda veðurspá fá líklega ekki annað en vont veður í sumar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×