Innlent

Tók á loft með mann í farangursgeymslunni

Atli Ísleifsson skrifar
170 farþegar voru um borð í Boeing 737 vélinni sem hafi alls verið á lofti í fjórtán mínútur. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
170 farþegar voru um borð í Boeing 737 vélinni sem hafi alls verið á lofti í fjórtán mínútur. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Vísir/AFP
Flugmaður vélar Alaska Airlines lýsti yfir neyðarástandi og nauðlenti vélinni í Seattle eftir að upp komst að maður væri í farangursgeymslu vélarinnar.

Vélin var á leið frá Seattle til Los Angeles og var fljótlega snúið við eftir að hljóð tóku að berast frá neðri hólfum vélarinnar, að því er segir í tilkynningu Alaska Airlines.

Eftir að vélinni hafði verið lent kom flugvallarstarfsmaður út úr vélinni og sagðist hafa sofnað um í farangursgeymslunni. Virtist sem í lagi væri með starfsmanninn sem þó var fluttur á sjúkrahús til athugunar.

Alaska Airlines segir að starfsmaðurinn hafi staðist lyfjapróf og verið úrskrifaður frá sjúkrahúsinu.

Í frétt BBC segir að 170 farþegar hafi verið um borð í Boeing 737 vélinni sem hafi alls verið á lofti í fjórtán mínútur.

Samstarfsmenn mannsins höfðu tekið eftir að hann væri ekki þeirra á meðal áður en vélin tók á loft en gert ráð fyrir að hann hefði klárað vakt sína og farið heim. Enginn hafi svarað þegar hringt var í síma mannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×