Innlent

Auka umsvif um 460 milljónir

svavar hávarðsson skrifar
Í Árósum. Næststærsta höfn Skandinavíu þar sem 600.000 gámar fara um.
Í Árósum. Næststærsta höfn Skandinavíu þar sem 600.000 gámar fara um. mynd/eimskip
Eimskip hefur tekið yfir 15.500 fermetra vöruhús danska fyrirtækisins Damco í Árósum.

Eimskip starfrækir 6.000 fermetra vöruhús í Danmörku við hlið Damco og verður nýja vöruhúsið alls 21.500 fermetrar og Eimskip stærsti rekstraraðili í alhliða vöruhúsaþjónustu við höfnina.

Yfir 600.000 gámar fara um höfnina í Árósum á ári hverju og gerir það hana að næststærstu höfn Skandinavíu. Vöruhúsið er staðsett innan gámahafnar með beint aðgengi að höfninni.

Damco hefur starfrækt vöruhúsið í Árósum síðan árið 2003. Aðaláhersla hefur verið á hýsingu, pökkun, stórflutninga, umskipun, gámahleðslu, dreifingu, vörutínslu og merkingu.

Í kjölfar breytinganna verða starfsmenn Eimskips í vöruhúsinu 45 talsins og er áætlað að árleg velta Eimskips í Danmörku muni aukast um þrjár milljónir evra – eða 460 milljónir íslenskra króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×