Innlent

Gera alvarlegar athugasemdir við dóma Hæstaréttar

Gunnar Atli Gunnarsson skrifar
VISIR
Fulltrúar sjö samtaka um réttindi kvenna afhentu í dag Ólöfu Nordal innanríkisráðherra áskorun varðandi stöðu mála um nálgunarbann. Samtökin fagna þeirri viðleitni lögreglu að láta reyna á nálgunarbann fyrir dómstólum en þeim hefur fjölgað mikið undanfarin ár.

Árið 2011 dæmdi Hæstiréttur í tveimur málum um nálgunarbann yfir sakborningi en þeim hefur fjölgað mikið undanfarin tvö ár. Á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs hefur Hæstiréttur dæmt í fimm slíkum málum. Í þremur af þessum fimm felldi Hæstiréttur nálgunarbannið úr gildi.

Samtökin gera alvarlegar athugasemdir við meðferð þessara mála hjá Hæstarétti og segja einn þessara þriggja dóma vera rökstuddan með svo léttvægum rökum að samtökunum sé brugðið.

„Þetta er ekki líðandi. Við teljum að þegar lögregla krefst nálgunarbanns yfir einstaklingi að þá liggi fyrir einhverjar ástæður. Af einhverjum ástæðum er Hæstiréttur ekki að taka til greina þessar ástæður sem Lögreglan færir fram,” segir Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennréttindafélags Ísland.

En er Hæstiréttur ekki einfaldlega að dæma eftir gildandi lögum?

„Það sem við viljum biðja um er að það komi með þessu lögum, leiðbeinandi reglugerð þar sem komi fram hvað telst til atvika sem skuli meta þegar ákvörðun er tekin um nálgunarbann,“ segir Brynhildur.

Samtökin skora á innanríkisráðherra að taka lög um nálgunarbann og brottvísun af heimili til endurskoðunar. Þó þurfi meira að koma til, meðal annars kalla samtökin eftir viðhorfsbreytingu íslenskra dómstóla.

„Það er að segja að dómarar geri sér grein fyrir afleiðingum kynferðisofbeldis í víðara samhengi og heimilisofbeldi,“ segir Brynhildur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×