Innlent

Hafa ekki heimild til að fylgjast með hugsanlegum hryðjuverkamönnum

Hjörtur Hjartarson skrifar
Einstaklingar sem lögreglan telur hættulega samfélaginu þar sem viðkomandi hafi vilja og getu til að fremja voðaverk hér á landi, ganga um eftirlitslausir og núgildandi reglugerð kemur í veg fyrir að lögreglan geti rannsakað þessi mál frekar.

Þetta kemur fram í mati Ríkislögreglustjóra um hættuna á hryðjuverkum og öðrum stórfelldum árásum hérlendis. Greiningardeild Ríkislögreglustjóra segist ekki búa yfir upplýsingum um að hér sé í undirbúningi hryðjuverk. Takmarkanir á rannsóknarheimildum geri þeim hinsvegar erfitt fyrir um að leggja raunverulegt mat á þessa ógn. Lögreglan segist engu að síður búa yfir upplýsingum um einstaklinga sem hafi bæði löngun og getu til að fremja hér voðaverk.



„Er verið að fylgjast með þessum einstaklingum?“



„Við vitum hver þeir eru og þeir eru á skrá hjá okkur,“ segir Ásgeir Karlsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn.



„Þarf ekki að stíga einhver ákveðnari skref í þessu samhengi?“



„Það þurfa að vera heimildir til staðar til að geta gert það.“

Ásgeir Karlsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn
Innanríkisráðherra segist vilja skoða málið gaumgæfilega áður ákvörðun um auknar heimildir eru veittar.

„Við verðum líka að ræða hvaða heimildir erum við að tala og leggja það á borðið. Þannig að ég hef núna áhuga á því að geta hafið efnislega umræðu um einhverja tiltekna þætti,“ segir Ólöf Nordal, innanríkisráðherra.





Ólöf Nordal, innanríkisráðherra
En Ásgeir segir það að auka rannsóknarheimildir dugi ekki eitt og sér.

„Við viljum auka viðbúnaðargetu lögreglunnar til að takast á við möguleg voðaverk sem geta átt sér stað hér,“ segir Ásgeir.

Aukin viðbúnaðargeta þýðir að þjálfa lögreglumenn í öllum embættum til að takast á við hryðjuverkaógn og um leið auka eða bæta vopnabúnað lögreglunnar.Ásgeir segir að þrátt fyrir þetta sé ekki ástæða fyrir almenning að óttast um öryggi sitt.

„Við segjum í skýrslunni að ekki sé hægt að útiloka að þetta geti gerst hér, það út af fyrir sig þýðir ekki að það muni gerast.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×