Innlent

Gerir ráð fyrir að selja 40.000 fiskibollur í dag

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Fiskikóngurinn selur nóg af fiskibollum og fiskhakki í dag, bolludag.
Fiskikóngurinn selur nóg af fiskibollum og fiskhakki í dag, bolludag. Vísir/Anton Brink/Stefán
Það eru eflaust margir sem hafa borðað fiskibollur í hádeginu í dag, á bolludaginn, en óformleg könnun blaðamanns leiddi í ljós að bollurnar voru á boðstólnum í dag í ófáum fyrirtækjum og grunnskólum landsins.

Kristján Berg, fisksali í fiskbúðinni Fiskikóngurinn, segir að varla seljist annað í dag en fiskibollur og fiskhakk.

„Ég geri ráð fyrir að selja svona 4 tonn í heildina af fiskhakki og svo tilbúnum bollum. Hver bolla er 100 grömm svo þetta eru svona 40.000 bollur allt í allt,“ segir Kristján. Hann segir bolludag þó ekki vera með stærstu dögum ársins hjá sér, þó mikið sé að gera í bollunum.

„Það er samt mjög gaman í dag en leiðinlegt á morgun, sprengidag, þegar allir fá sér saltkjöt. Það er einn leiðinlegasti dagur ársins fyrir fisksala og ætti eiginlega að vera löggiltur frídagur þeirra,“ segir fiskikóngurinn.

Undir þetta tekur Birgir Rafn Ásgeirsson, fisksali í fiskbúðinni Vegamót á Nesvegi.

„Já, það er nóg að gera í dag en ómögulegt að skjóta á hvað við seljum mikið. Veðrið spilar til dæmis inn í þetta og gamla fólkið fer síður út. En já, það liggur við að maður geti haft lokað á morgun,“ segir Birgir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×