Innlent

Íslenskt eyðibýli hræddi líftóruna úr erlendum ljósmyndara

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Ben Kepka var mikið niðri fyrir eftir að hafa stungið inn höfðinu í eyðibýlið.
Ben Kepka var mikið niðri fyrir eftir að hafa stungið inn höfðinu í eyðibýlið. Skjáskot
„Þetta var ótrúleg upplifun.“ Ljósmyndarinn Ben Kepka segist sjaldan hafa verið jafn hræddur eins og þegar hann stakk hausnum inn í íslenskt eyðibýli á ferðalagi sínu um landið á dögunum.

Hann hefur deilt myndbandi af kynnum sínum af húsinu með fylgjendum sínum á Youtube sem tekið er á þriðja degi Íslandsheimsóknar hans. Það má sjá hér að neðan en ljóst er að hann er augljóslega skelkaður eftir innlitið.

Þó svo að hann tiltaki ekki nákvæmlega hvert eða hvar húsið er má leiða líkur að því að hér sé um að ræða Harðavöll á Suðurlandi.

Ef hér er farið með rangt mál mega staðkunnugir lesendur endilega senda leiðréttingu á ritstjorn@visir.is

Þetta spilaborð fyrir andaglas er meðal þess sem hræddi Kepka ógurlega.Skjáskot
Kepka ráfaði um húsið vopnaður myndavélinni og tók myndir af því sem fyrir augu bar. Blóðpollur og Biblía á rúminu fengu kalt vatn til að renna milli skinns og hörunds Kepka og spilaborð fyrir andaglas fékk hár hans til að rísa. 

Það sem gerði þó útslagið var hár dynkur sem Kepka kveðst hafa heyrt þegar hann myndaði eldhús eyðibýlisins. Þá hafi botninn tekið úr og hann forðað sér út, með munninn fullan af ryki, einungis um mínútu eftir að hann steig fyrst fæti inn í húsið.

Ben Kepka lýsir fyrir áhorfendum hvernig hann hafa varla trúað því að húsið, sem hann segist sannfærður um að sé reimt, sé raunverulegt. Aðkoman hafi verið svo ógnvekjandi að einhver hlyti að hafa stillt þessu svona upp til að hræða forvitna ferðamenn eins og hann.

Myndbandið af raunum Kepka má sjá hér að neðan en lýsingar hans af eyðibýlinu hefjast þegar um 4 mínútur og þrjátíu sekúndur eru liðnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×