Innlent

Ljúka smíði nýs kappakstursbíls

Linda Blöndal skrifar
Verið er að leggja lokahönd á smíði nýs kappakstursbíl hjá verkfræðinemum við Háskóla Íslands. Haldið verður utan með bílinn þar sem keppt verður á alþjóðlegu hönnunar og kappakstursmóti. 

Langur undirbúningur

Um fjörtíu nemendur í verkfræði við Háskóla Íslands hafa frá því í haust unnið að þróun og smíði kappakstursbílsins TS15, meðal annars í samstarfi við nemendur Listaháskóla Íslands. Nemarnir taka þátt í alþjóðlegu kappaksturs- og hönnunarkeppninni Formula Student sem verður haldin verður meðal annars á Silverstone-kappakstursbrautinni í Englandi í júlí næstkomandi.



Keppa við meira en 110 lið

Íslenska liðið nefnir sig Team Spark og tekur þátt í fimmta sinn í þessari árlegu keppni. Liðið er nokkuð breytt frá því í fyrra en það hlaut síðast viðurkenningu sem bestu nýliðarnir og hlaut flest stig fyrir endurnýjanleika. Rúmlega 30 verkfræðistúdentar í liðinu fara út í keppnina. „Þetta er alþjóðleg keppni og hún er haldin í öllum heimsálfum. Við tökum þátt í keppninni á Silverstone vellinum og þar verða yfir þrjú þúsund verkfræðinemar frá öllum heiminum. Við keppum við yfir 110 lið, frá 110 háskólum", segir Aðalheiður Guðjónsdóttir, liðstjóri.  



Fáum reynslu sem verkfræðingar 

Útsendarar frá stærstu bílafyrirtækjum heims verða á vettvangi og í keppninni felst ómetanleg starfsreynsla segir Aðalheiður. „Við fáum svolítið að finna fyrir því hvað verkfræðingar gera. Við fáum verkefni sem við vitum ekkert hvernig við eigum að leysa og við verðum bara að koma því á áfangastað og ég held að það sé frábært fyrir nema svona snemma í náminu að fá að kynnast þessu".



Þurfum að rökstyðja og skýra allt

Í keppninni gera dómararnir miklar kröfur. „Við þurfum að rökstyðja hönnunina og allan kostnað. Við þurfum líka að selja okkar hugmynd og erum við viðskiptakynningu, við þurfum að hugsa verkefni frá A til Ö. Við þurfum jafnvel að hugsa að ef við tökum ál, þá hvernig við ætlum að framleiða hlutinn og líka hvernig við ætlum að farga hlutnum. Við þurfum að hugsa þetta alveg frá því að álið er framleitt og þangað til að það er komið í endurvinsslu - og allt þar á milli", sagði Aðalheiður í fréttum Stöðvar tvö í kvöld. 



Léttasti bíllinn hingað til

Áherslan er sem fyrr á rafknúinn og umhverfisvænan bíl og keppt verður í flokki þar sem bæði er dæmt út frá hönnun bílsins og akstri. Sá nýji er langtum léttari en sá sem farið var með út í fyrra, til að mynda eru koltrefjar notaðar í stað áls.

Aðalheiður segir að ökumaðurinn muni hálpartinn liggja í bílnum þegar honum er ekið svo mikill halli sé á sætinu. Sex af nemendunum hafa gefið sig fram til að keyra svo áhuginn er því þónokkur að keppa í nýja tækinu.  

Fræðilega mun bíllinn komast upp í 120 kílómetra hraða á tveimur til þremur sekúndum en hann verður vígður með athöfn á Háskólatorgi næstkomandi fimmtudag klukkkan 17.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×