Innlent

Greiða fullt gjald á báðum leikskólum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Almennt mælir umboðsmaður barna gegn því að börn sæki tvo leikskóla á sama tíma.
Almennt mælir umboðsmaður barna gegn því að börn sæki tvo leikskóla á sama tíma. Fréttablaðið/Vilhelm
Skóla- og frístundaráð Akraness segir eðlilegt að foreldri greiði leikskólagjald samkvæmt fyrirliggjandi gjaldskrá hverju sinni og helming fæðisgjalds ef barn er í tveimur leikskólum vegna mismunandi búsetu foreldranna.

Á fundi skólaráðsins var tekið fyrir leiðbeinandi álit Sambands íslenskra sveitarfélaga frá árinu 2013. Þar segir meðal annars að ekki sé gert „ráð fyrir að greitt sé sérstaklega fyrir leikskólavist vegna tvöfaldrar búsetu barns“.

Þrátt fyrir að greiða beri leikskólagjaldið allt í slíkum tilfellum að mati skólaráðs Akraness, segir ráðið að foreldri njóti eftir efnum og ástæðum þeirra afslátta sem kveðið sé á um í gjaldskránni.

Umboðsmaður barna sendi einnig frá sér álit um tvöfalda leikskólavist á árinu 2013. „Foreldrar verða að hafa hagsmuni barns að leiðarljósi og ættu ekki að ætlast til þess að barn „skipti lífi sínu í tvennt“ af því það hentar foreldrum betur,“ sagði umboðsmaður. „Telur umboðsmaður barna því almennt ekki rétt að ætlast til þess að barn sé í tveimur leikskólum, enda getur það raskað námi og félagslegum tengslum barns.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×