Innlent

Jólasveinauppistandið umdeilda sem bæjarstjórinn fyrrverandi telur hafa kostað sig vinnuna hjá Alcoa

Birgir Olgeirsson skrifar
Ólafur Hr. Sigurðsson segir þetta jólasveinauppistand hafa kostað sig vinnuna hjá Alcoa Fjarðaáli á Reyðarfirði.
Ólafur Hr. Sigurðsson segir þetta jólasveinauppistand hafa kostað sig vinnuna hjá Alcoa Fjarðaáli á Reyðarfirði. Vísir/YouTube
Nú er komið fram myndbandið sem tekið var af jólasveinauppistandi Ólafs Hr. Sigurðssonar í Alcoa Fjarðaáli á Reyðarfirði síðastliðinn desember. Vísir hafði fjallað um þetta uppistand Ólafs fyrr í vikunni en hann sagði frá því að það hefði kostað hann vinnuna í álverinu og hafði hann ritað um það grein sem birtist á vef Austurfréttar.

Ólafur sagði frá því að hann hefði verið rekinn sem leiðtogi í kerskála í fyrra en hefði verið boðin vinna áfram hjá fyrirtækinu og ákvað hann að fara aftur út „á gólf” að vinna.

Sjá einnig: Fyrrverandi bæjarstjóri rekinn frá Alcoa eftir jólasveinauppistand

Skömmu síðar, eða í desember síðastliðnum, ákvað hann að gleðja félaga sína á „gömlu vaktinni” í kerskálanum með því að koma í heimsókn sem jólasveinn. Hann færði þeim sælgæti og gos og var jafnframt með jólasveinauppistand. Þessi uppákoma var tekin upp á myndband og sett á netið en nokkrum dögum síðar var hann boðaður á fund í álverinu þar sem honum var tilkynnt að inn fyrir dyr álversins kæmi hann ekki aftur og segir Ólafur þetta jólasveinauppistand hafa farið fyrir brjóstið á yfirmönnum hans.

Nú er myndbandið komið fram sem birt er á YouTube-rás Austurfréttar og má einnig sjá hér fyrir neðan.

Í myndbandinu má heyra Ólaf gera létt grín að uppsögn sinni en þar talar hann um að gríðarlegt álag sé á jólasveinum, svo mikið að þeir eru líkt og hverjir aðrir framkvæmdastjórar.

„Og eru með svona þræla sem sjá um taka til dótið handa krökkunum og svo framvegis. Við notum í þetta dverga og álfa og einhverja titti og svo fáum við einn og einn úr mannheimum sem ekki er hægt að nota,” heyrist Ólafur segja sem jólasveinninn og þá segist hann hafa fengið símtal frá manni sem vildi losna við „leiðtogaræfil” eins og hann orðar það en í Alcoa Fjarðaál eru yfirmenn á vöktum kallaðir leiðtogar.

Ólafur Hr. Sigurðsson segir illt fyrir Seyðfirðing að missa góða vinnu hjá Alcoa sem var betur borguð en að vera bæjarstjóri á Seyðisfirði en þeirri stöðu gegndi hann áður í níu ár.
„Hann þurfti að losna við einhvern leiðtogaræfil og spurði mig hvort ég gæti ekki tekið hann í nokkra daga. Ég lofaði að taka gripinn en þvílík sending maður minn. Hann var ekki fyrr kominn fyrr en hann fór að tuða um einhvern aðbúnað og svo var svo kalt hjá okkur. Svo var hann að tala um velferð fólksins, eitthvað tómt bull.”

Ólafur sagði við Vísi fyrr í vikunni að hann vissi ekki hvað það var sem fór svo fyrir brjóstið á yfirmönnum hans varðandi þetta jólasveinauppistand.

„Ég er ennþá að reyna að skilja það. Það var með góðum vilja hægt að lesa út úr því að ég væri fúll en það þurfti að leggja sig í líma við það. Það var ekkert sem var niðrandi eða meiðandi eða hægt að pirra sig yfir hjá Alcoa. Hjá sumum fyrirtækjum hafa menn pínulítinn húmor fyrir sjálfum sér en það örlar ekki fyrir því þarna.”


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×