Innlent

„Yfirþyrmandi stórvirki að telja upp mannkosti Eggerts Þórs“

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Eggert Þór skilur eftir sig móður, eiginkonu, tvo syni, tengdadóttur og sonardóttur.
Eggert Þór skilur eftir sig móður, eiginkonu, tvo syni, tengdadóttur og sonardóttur. Vísir/Vilhelm
Stofnaður verður minningarsjóður við Háskóla Íslands um Eggert Þór Bernharðsson, sagnfræðing og rithöfund, sem lést fyrir aldur fram á gamlársdag.

Þórunn Erla Valdimarsdóttir, eiginkona Eggerts Þórs, greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni þar sem fram kemur að sjóðurinn sé ekki til helgimyndar heldur til að styrkja hugsjónir Eggerts. Það sem brenni nú sé að styrkja lausakennara á skítalaunum sem þurfa að halda Hagnýtri menningarmiðlun gangandi án Eggerts.

Eggert Þór gaf út bókina Sveitin í sálinni fyrir jólin. Hann hóf kennslu í sagnfræði við Háskóla Íslands árið 1987 og kenndi þar til ársins 2006. Þá kom hann á fót námi í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands þar sem hann var dósent og svo prófessor frá árinu 2009.

„Í patríarkíinu eins og í biblíunni og skoska clankerfinu hverfa konur úr fjölskyldu sinni til að verða hluti fjölskyldu eiginmanns síns. Ég varð hins vegar um tímabil hluti af fjölskyldu sem Eggert var líka hluti af og við vorum svilar í eitthvað um þrjú ár. Við bjuggum undir sama þaki milli 1983 og 1984,“ segir Elías Halldór Ágústsson í færslu um Eggert Þór.

„Að telja upp mannkosti hans virðist eitthvað svo yfirþyrmandi stórvirki að manni hrýs hugur við að hefja það verk,“ bætir Elías Halldór við.

„Fyrir utan að vera framúrskarandi fræðimaður á sviði sagnfræði var hann líka einstakur hæfileikamaður í því að sameina krafta ólíkra fræðisviða sem stafaði sennilega af því hversu mikið aðdráttarafl hann hafði á hæfileikafólk hvar sem það fyrirfannst í Háskóla Íslands.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×