Innlent

Tímósjenkó í Íslandsheimsókn

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Tímósjenko fundaði með Guðmundi Þóroddssyni, forstjóra Reykjavík Geothermal.
Tímósjenko fundaði með Guðmundi Þóroddssyni, forstjóra Reykjavík Geothermal. vísir/AFP
Júlía Tímósjenkó, fyrrverandi forsætisráðherra Úkraínu, var stödd hér á landi á þriðjudag til að kynna sér orkumál Íslendinga.

Með henni í för var meðal annars Júrí Prodan, fyrrverandi orkumálaráðherra Úkraínu.

Júlía og föruneyti hennar kynntu sér meðal annars starfsemi Reykjavík Geothermal og Hellisheiðarvirkjunar.

Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Reykjavík Geothermal, segir hana hafa verið að velta fyrir sér jarðhitanotkun í Úkraínu.

„Þau eru í nokkrum vandræðum með þetta. Þau treysta á kjarnorkuver sem eru gömul og úr sér gengin. Síðan treysta þau á gas frá Rússlandi en einnig eru þau með kolaver. Það er orkugjafi sem er á miklu undanhaldi. Þannig að þau eru að leita nýrra lausna,“ segir Guðmundur.

Tímósjenkó er orkumálum ekki ókunnug en hún er gjarnan kölluð Gasprinsessan þar sem hún starfaði áður sem framkvæmdastjóri Ukrainzky Benzin og stjórnarformaður United Energy Systems og Ukraine sem eru tvö stór gasfyrirtæki í Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×