Innlent

Öxar við ána skolaðist til hjá forsætisráðherra og föruneyti

Birgir Olgeirsson skrifar
Frá athöfninni við stjórnarráðshúsið gær.
Frá athöfninni við stjórnarráðshúsið gær. Vísir/Youtube/Halldór Sigurðsson
Það var sannkölluð hátíðarstund á þjóðhátíðardeginum í gær þegar afhjúpað var skilti og skjöldur við stjórnarráðshúsið í Reykjavík. Á meðal þeirra sem voru viðstaddir athöfnina voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Hrannar Pétursson verkefnisstjóri hjá forsætisráðuneytinu og Sigurður Már Jónsson upplýsingafulltrúi ríkisstjórnarinnar.

Þegar skildinum hafði verið komið fyrir brustu viðstaddir í söng. Lagið sem varð fyrir valinu er Öxar við ána en það hefur vakið athygli netheima að ráðherrann og föruneyti hans virðast ekki vera með texta lagsins á hreinu sem er eftirfarandi:

Öxar við ána

árdags í ljóma

upp rísi þjóðlið og skipist í sveit.

Skjótum upp fána,

skært lúðrar hljóma,

skundum á Þingvöll og treystum vor heit.

Fram, fram, aldrei að víkja!

Fram, fram, bæði menn og fljóð!

Tengjumst tryggðaböndum,

tökum saman höndum,

stríðum, vinnum vorri þjóð!



Það sem skolaðist til við flutning lagsins hjá forsætisráðherranum og föruneyti hans er lína: „Tengjumst tryggðaböndum, tökum saman höndum“ en í stað þess var sungið: „Tökum saman höndum, tengjumst tryggðaböndum.“

Ljóðlínan Öxar við ána er upphaf kvæðisins Þingvallasöngur eftir Steingrím Thorsteinsson en Helgi Helgason á lagið. Á Vísindavef Háskóla Íslands er ljóðið sagt hvatning til þjóðarinnar um að standa saman og vinna landi sínu gagn.

Flutninginn má heyra í spilaranum hér fyrir neðan og hefst þegar 3 mínútur og 20 sekúndur eru liðnar af myndbandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×