Innlent

Frumvarp um millidómstig ekki lagt fram

fanney birna jónsdóttir skrifar
Ólöf Nordal innanríkisráðherra skoðar nú tillögur nefndar um millidómstig. Á meðan verður hæstaréttardómurum fjölgað.
Ólöf Nordal innanríkisráðherra skoðar nú tillögur nefndar um millidómstig. Á meðan verður hæstaréttardómurum fjölgað. Fréttablaðið/Valli
Frumvarp um stofnun nýs millidómstigs, Landsréttar, verður ekki lagt fram á þessu þingi samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Frestur til að leggja fram ný frumvörp rennur út þann 31. mars næstkomandi.

Ólöf Nordal innanríkisráðherra leggur þess í stað til að dómurum við Hæstarétt verði fjölgað tímabundið úr níu í tíu. Er það gert vegna mikils álags á dómstólinn, sem var meðal þess sem stofnun millidómstigs átti að mæta.

Í frumvarpi þessa efnis sem Ólöf lagði fyrir ríkisstjórn í gær kemur fram að álagið á Hæstarétt er enn mikið sökum málafjölda og þess að mál sem koma til meðferðar hjá réttinum eru þyngri en áður.

Fjölgun dómaranna tekur gildi þann 1. september næstkomandi og gildir út árið 2016.

Í frumvarpinu er tekið fram að frumvarpsdrög um millidómstig, sem skilað hefur verið til innanríkisráðherra um stofnun Landsréttar, séu til skoðunar í ráðuneytinu. Ljóst sé að verði millidómstigi komið á muni taka nokkurn tíma að innleiða þær breytingar sem því myndu fylgja. Í ljósi þess mikla álags sem nú er á Hæstarétti og mikilvægi þess að málshraða sé haldið í góðu horfi þykir ráðherra ekki varhugavert að fjölga hæstaréttardómurum um einn, þrátt fyrir að breytingar á dómskerfinu séu hugsanlega fram undan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×