Innlent

Gjaldkeri dró sér tæpa milljón á fjögurra ára tímabili

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness. vísir/hari
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í gær konu í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir fjárdrátt. Hún starfaði sem gjaldkeri hjá einkahlutafélagi og var fundin sek um að hafa dregið sér fé í alls 65 tilvikum á fjögurra ára tímabili. Upphæðin nemur alls 953.416 krónum.

Konan framkvæmdi heimildarlausar millifærslur af reikningi félagsins inn á eigin bankareikning. Þá tók hún út vörur í verslunum og lét skuldfæra þær á viðskiptareikning félagsins en notaði vörurnar sjálf. Tók konan meðal annars út vörur í Byko, Dekkjahúsinu og Tölvulistanum.

Þá keypti hún vörur fyrir sjálfa sig með greiðslukorti félagsins í verslunum á borð við Bónus, Lyfjum og heilsu og Iceland. Jafnframt lét konan útbúa tilhæfulausa kreditnótu á móti útgefnum reikningi en í kjölfarið tók hún út fjármuni úr sjóðsvél félagsins sem nam andvirði viðkomandi reiknings. Fjármunina nýtti hún svo í eigin þágu.

 

Konan játaði brot sín skýlaust fyrir dómi. Þá hefur hún ekki verið fundin sek um refsiverða háttsemi áður. Að teknu tilliti til þess þótti dómnum hæfileg refsins skilorðsbundið þriggja mánaða fangels og er dómurinn skilorðsbundinn til tveggja ára.

Dóm héraðsdóms má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×