Innlent

Skilorðsbundið fangelsi fyrir hnefahögg við veislusal í Kópavogi

Birgir Olgeirsson skrifar
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness. vísir/stefán
Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að slá annan karlmann hnefahöggi í andlitið fyrir utan veislusalinn Gala á Smiðjuvegi 1 í Kópavogi aðfaranótt föstudagsins 18. apríl í fyrra.

Við hnefahöggið kjálkabrotnaði sá sem fyrir því varð ásamt því að hljóta tilfærslu a framtönn og hliðarframtönn í erfi kjálka, rof á slímhúð, rof á tannholdi og opið sár vinstra megin á efri vör.

Ákærði játaði brotið skýlaust fyrir dómi en við ákvörðun refsingar var litið sérstaklega til þess að hann hafði ekki gerst sekur um refsivert brot áður. Dómurinn sagði ekki hægt að réttlæta árás ákærða en þó var tekið mið af þeim framburði hans að sá sem fyrir högginu varð hafði ögrað ákærða í aðdraganda árásarinnar.

Þótti því tveggja mánaða skilorðsbundin fangelsisrefsing hæfileg.

Ákærði var einnig dæmdur til að greiða þeim sem fyrir högginu varð 570 þúsund krónur í skaðabætur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×