Enski boltinn

Segir að Rodgers hefði getað endað hjá Real Madrid

Stefán Árni Pálsson skrifar
Brendan Rodgers er undir mikilli pressu.
Brendan Rodgers er undir mikilli pressu. vísir/getty
Tim Sherwood, knattspyrnustjóri Aston Villa, segir að forráðamenn Liverpool séu heppnir að hafa Brendan Rodgers sem stjóra liðsins.

Sherwood hefur greinilega mikið álit á Rodgers og telur að sú gagnrýni sem hann hefur fengið á tímabilinu eigi ekki rétt á sér, en fjölmiðlar greina ítrekað frá því að starf Rodgers sé í hættu.

Villa mætir Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í dag en Aston Villa er með fjögur stig í deildinni  og í 17. sæti. Liverpool er aftur á móti með átt stig í þrettánda sætinu.

Rodgers náði góðum árangri með Liverpool árið 2014 en það hafnaði í öðru sæti. Litlu mátti muna að leikmenn Liverpool myndu lyfta enska meistaratitlinum.

„Eftir það tímabil var hann einn heitasti bitinn á markaðnum og Liverpool gerði allt til þess að halda honum. Núna er hann allt í einu orðinn lélegur stjóri,“ segir Sherwood í samtali við Sky.

Sherwood segir að ef Liverpool hefði unnið deildina árið 2014 þá hefði Rodgers getað farið til Real Madrid.

„Það er erfiðara að stýra liðum núna en fyrir tuttugu árum. Með tilkomu samfélagsmiðla og allri umræðunni á internetinu eru komnir mun fleiri sérfræðingar til sögunnar.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×