Innlent

Rukkað fyrir afnot af kirkjum í uppsveitum Árnessýslu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Séra Óskar Hafsteinn Óskarsson, sóknarprestur í Hruna í Hrunamannahreppi.
Séra Óskar Hafsteinn Óskarsson, sóknarprestur í Hruna í Hrunamannahreppi. vísir/magnús hlynur
Sóknarnefndir fjögurra sóknarkirkna og tveggja bænahúsa í uppsveitum Árnessýslu og prestur kirknanna hafa ákveðið að hefja gjaldtöku vegna skírna og brúðkaupa í kirkjunum fyrir afnot af guðshúsunum.

Kirkjurnar sem um ræðir eru Hrunakirkja, Stóra-Núpskirkja, Ólafsvallakirkja, Hrepphólakirkja og bænahúsinu á Stöng í Þjórsárdal og í Tungufelli. Ákveðið hefur verið að fólk sem býr ekki í sóknunum og vill skíra eða vera með brúðkaup í kirkjunum borgi fyrir afnot af þeim. Ekki er rukkað fyrir jarðafarir. Gjaldið er 3.000 krónur fyrir skírn og 10.000 krónur fyrir brúðkaup. Séra Óskar Hafsteinn Óskarsson, prestur í Hruna er prestur allra þessara kirkna og bænahúsa.

„Það er auðvitað heilmikil umsýsla, sem að fylgir afnotum af þessu kirkjum, t.d. þrif, rafmagn og stúss í kringum að sjá um að allt sé klárt og svo að ganga frá á eftir. Við köllum þetta viðmiðunargjald því að sannleikurinn er sá að margir, sem óska eftir því að fá afnot af þessum fallegu kirkjum að það spyr gjarnan hvað kostar þetta, hvað kostar þetta umstang okkar. Þá hefur ekkert verið nefnt, bara bent á kirkjubaukinn,“ segir séra Óskar Hafsteinn.

En hvað ætlar hann að gera ef fólk neitar að borga ?

„Þá auðvitað ætlum við ekki að fara í slag við fólk um þetta. Þetta eru held ég afskaplega vinsamleg tilmæli  og vinsamleg niðurstaða hjá okkur.“ 

Þegar Óskar Hafsteinn var spurður hvort hann héldi að hann væri á  hálum ís með nýju gjaldtökunni sagði hann;  „Nei, það vona ég ekki, við erum afskaplega umburðarlynd og skilningsrík í uppsveitunum, þannig að ég á ekki von á því að það verði neinir eftirmálar af þessu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×