Innlent

Segir Sigmund Davíð mistakast að hrífa fólk með sér

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Stærðfræðingurinn Baldur Héðinsson, stjórnmálasálfræðingurinn Hulda Þórisdóttir og blaðamaðurinn Kolbeinn Óttarsson Proppé gerðu upp þingveturinn í Umræðunni hjá Heiðu Kristínu. Heiða Kristín ræddi einnig við fulltrúa allra flokka á þingi og bað þá um að lýsa stöðunni eins og hún horfir við þeim.

Þórunn Egilsdóttir, þingflokksformaður Framsóknarflokksins, sagði að flokkurinn væri að standa sig vel og hann hefði sýnt staðfestu. Álitsgjafarnir voru sammála um að hægt væri að færa rök fyrir því en flokknum hefði gengið illa að vinna fólk á sitt band.

„Sigmundi Davíð hefur tekist að sigla gríðarlega mikilvægum málum í höfn þá hefur honum algerlega mistekist að hrífa þjóðina með sér. Í rauninni hefur honum tekist að ýta henni frá sér með yfirlýsingum um að þjóðin sé veruleikafyrrt,“ benti Hulda á.

Þingflokksformaður á leið í forsetaframboð?

Einnig var rætt við Ragnheiði Ríkharðsdóttur, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, og voru viðmælendur Heiðu sammála um að hún skæri sig helst úr þeim sem rætt var við. „Ætli hún sé ekki að undirbúa sig fyrir eitthvað embætti í flokknum,“ sagði Kolbeinn Óttarsson Proppé. Þeim möguleika var einnig velt upp að hún væri að undirbúa sig fyrir forsetaframboð.

„Þessar tölur undanfarið hafa verið með ólíkindum,“ segir Baldur um fylgi Pírata en hann telur að fylgið sé nokkuð fast í kringum 30% enda hafi það verið að mælast þar hjá öllum könnunaraðilum undanfarna mánuði.

Hulda telur að fylgi Pírata megi skýra með tilliti til skorts á trausti til þingsins en alfarið hafi mistekist að byggja það upp í kjölfar hrunsins. „Ég held að fólk treysti ekki gömlu flokkunum og Píratar hafi ekki enn verið staðnir að óheilindum. Enn sem komið er hafa þeir ekki valdið neinum vonbrigðum.“ Hún segir að Píratar séu ferkir og öðruvísi á meðan Björt framtíð, sem einnig er nýtt afl á þingi, hafi orðið samdauna gamla kerfinu.  

Innslögin úr umræðunni fylgja hér með fréttinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×