Innlent

Vilja vinna að kerfisbreytingum í heilbrigðiskerfinu

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Vísir/Vilhelm
Unnið verður að innleiðingu launaþróunartryggingar fyrir hjúkrunarfræðinga, kannaðir verða kostir þess að auka sveigjanleika vinnutímaákvæða þeirra og áherslu verður lögð á aukinn sveigjanleika í rekstri heilbrigðisstofnanna.

Þetta segir í yfirlýsingu stjórnvalda á vef fjármálaráðuneytisins í tengslum við kjarasamninga ríkisins og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga sem undirritaðir voru í gær en þar eru reifaðar hugmyndir ríkisstjórnarinnar um það hvernig hún telur að „bæta megi kjör hjúkrunarfræðinga til lengri tíma.”

Þar segir að stjórnvöld muni keppa að því að í samráði við Fíh að bæta launakjör og skapa bætt skilyrði til þess að ríkið greiði samkeppnishæf laun sem endurspegli ábyrgð í starfi, kröfur um menntun og frammistöðu starfsmanna.

Þá verði áfram unnið að nýju fyrirkomulagi við gerð kjarasamninga, þar sem horfa verður til lengri tíma, þannig að samningaviðræður í framtíðinni verði einfaldari og árangursríkari sem og að vinna að kerfisumbótum sem geta leitt til jákvæðrar launaþróunar umfram umsamdar taxtahækkanir í kjarasamningum.

Kerfisumbótatillögur ríkisstjórnarinnar eru í fimm liðum og lúta að; útfærslu stofnanasamninga og launamála innan heilbrigðisstofnana, samspili launamála og fjárlagagerðar, launaþróunartryggingu, samspili framleiðni, vinnuumhverfis, vinnutíma og launaþróunar og að lokum fjármálum.

Í tillögunum kennir ýmissa grasa. Til að mynda að samið verði um styrkingu á stofnanasamningum í kjarasamningum og og að sérstök áhersla verði lögð á frammistöðu og menntun við launaákvarðanir.

Þá verði unnið að því í tengslum við fjárlagagerð að ekki skapist misræmi í launasetningu fyrir sambærileg störf til að tryggja að starfsfólk einstakra heilbrigðisstofnana sitji ekki eftir í launaþróun.

Í tillögunum segir einnig: „Komast verður hjá því að kjarasamningar á almennum vinnumarkaði standi í vegi þess að hægt sé að breyta launum á grunni kerfisbreytinga eða endurmeta launakjör einstakra hópa ríkisstarfsmanna. Unnið verður að innleiðingu launaþróunartryggingar sem felur í sér reglubundinn samanburð launa félagsmanna Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga við launaþróun almennt og reiknaða aðlögun þar í milli“ Þetta verði gert í samráði við önnur samtök á vinnumarkaði.

Þá vilja stjórnvöld kanna kosti þess að endurskoða ákvæði kjarasamninga um vinnutíma og auka sveigjanleika vinnutímaákvæða, til dæmis þannig að einstakar stofnanir geti gert tilraunir með breytingar á vinnufyrirkomulagi.

Yfirlýsinguna undirrita Sigmundur Davíð Gunnlaugsson,  forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra og hana má í heild sinni lesa með því að smella hér.


Tengdar fréttir

Stór hluti mun ekki draga uppsagnir til baka

Að minnsta kosti 170 hjúkrunarfræðingar hafa sagt starfi sínu lausu á Landspítalanum. Hjúkrunarfræðingar segja fulla alvöru að baki uppsögnunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×