Innlent

Síbrotamaður sakaður um að svíkja húsfélög

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Róbert var fenginn til að vinna verkefni í Lundarbrekku 4 í Kópavogi.
Róbert var fenginn til að vinna verkefni í Lundarbrekku 4 í Kópavogi. vísir/GVA
„Hann byrjar bara að öskra og þetta var hans taktík í öllum samtölum. Hann öskrar og skellir á,“ segir Adda Guðrún Sigurjónsdóttir, íbúi í Lundarbrekku 4.

Adda segir farir sínar ekki sléttar í samskiptum við Róbert Guðmundsson, sem tekur að sér múrviðgerðir og málningu.

Róbert var dæmdur til sektargreiðslu í Héraðsdómi Suðurlands í maí, en hann er ekki menntaður iðnaðarmaður. Hann var ákærður fyrir brot á iðnaðarlögum með því að hafa, á árunum 2011 til 2014, tekið að sér málningarþjónustu, múrviðgerðir og hellulagnir gegn gjaldi og auglýst starfsemi sína. Hann játaði brotin. Í dómnum kemur fram að Róbert hafði sautján sinnum áður sætt refsingu.

Viðmælendur Fréttablaðsins fullyrða að Róbert hafi hvergi nærri látið af brotastarfsemi sinni.

Adda Guðrún, sem er gjaldkeri húsfélagsins í Lundarbrekku 4, greinir til dæmis frá því að samið hafi verið við Róbert um múrviðgerðir á húsinu þar. Hann hafi krafist 930 þúsund króna greiðslu fyrir verkið en húsfélagið greitt honum 610 þúsund. Hún segir að verkið hafi verið illa unnið og starfsmenn, sem hafi unnið fyrir Róbert, hafi viðurkennt fyrir íbúa í húsinu að þeir hefðu aldrei haldið á pensli. Þá hafi þeir málað í rigningu og niðamyrkri.

„Vinnubrögðin voru hræðileg,“ segir Adda Guðrún. Þegar Róberti hafi verið neitað um frekari greiðslur vegna verksins hafi hann sent henni hótun í sms-i sem hún hafi farið með til lögreglunnar.

„Skilaboðin voru engu að síður þess eðlis að lögreglan treysti sér ekki til þess að gera neitt í málinu,“ segir Adda Guðrún.

Ingi Freyr Ágústsson héraðsdómslögmaður segir að Róbert hafi dreift auglýsingamiðum til að vekja athygli á þjónustu sinni. Hann segir að Róbert hafi sjálfur ekki gefið út reikninga vegna verksins í Lundarbrekku, heldur fengið annan mann til að gera það fyrir sig. Sá aðili hefur ekki tilskilin innheimtuleyfi. Ingi Freyr segir slíkt óheimilt og hann hafi því bæði sent ábendingu til Fjármálaeftirlitsins og kært til lögreglu.

Samkvæmt upplýsingum frá Málarameistarafélaginu hafa borist um tíu kvartanir vegna Róberts á skömmum tíma.

Róbert Guðmundsson hefur verið í forsvari fyrir samtökin Hjálparsamtök Íslendinga. Hann var sakaður opinberlega um að hafa safnað peningum fyrir fólk í nauð en nýtt þá í eigin þágu.

Róbert hafnaði ásökununum í í útvarpsþættinum Harmageddon í fyrra. Hann hafnar líka þeim ásökunum Öddu Guðrúnar og Ingi Freys.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×