Enski boltinn

Klofningsfélag Manchester United skrefi nær atvinnumannadeild

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Stuðningsmenn FC United eru dyggir.
Stuðningsmenn FC United eru dyggir. Vísir/Getty
FC United of Manchester, félagið sem var stofnað eftir yfirtöku Glazer-fjölskyldunnar á Manchester United, er komið skrefi nær því að gerast atvinnumannafélag.

Liðið komst í gærkvöldi upp um deild og leikur í Conference North-deildinni á næsta tímabili og er nú tveimur deildum frá ensku D-deildinni, þeirri neðstu í ensku deildakeppninni.

FC United vann í gær 1-0 sigur á Stourbridge þökk sé skallamarki Greg Daniels. Þar með tryggði liðið sér sigur í Evostik Northern Premier League-deildinni. 3588 áhorfendur voru á leiknum en með sigrinum náði liðið að fara upp um deild í fjórða sinn á þeim tíu árum sem liðin eru síðan að félagið var stofnað.

Liðið mun á næsta tímabili til að mynda leika gegn Stockport County sem var í C-deildinni fyrir einungis fimm árum síðan.

Félagið var stofnað af stuðningsmönnum Manchester United sem voru óánægðir með yfirtöku hinna bandarísku Glazer-fjölskyldu á sínum tíma. Félagið er að fullu í eigu stuðningsmanna þess sem sjá einnig um að reka það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×