Handbolti

Trú­lofað par tekið inn í FH fjöl­skylduna

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Szonja Szöke og Khalil Chaouachi trúlofuðu sig síðasta haust og munu bæði leika með liðum FH á næsta tímabili.
Szonja Szöke og Khalil Chaouachi trúlofuðu sig síðasta haust og munu bæði leika með liðum FH á næsta tímabili.

Khalil Chaouachi og sambýliskona hans Szonja Szöke munu leika með handboltaliðum FH næstu þrjú árin. Khalil er 23 ára línumaður en Szonja tvítugur markmaður. Félagið mun hjálpa þeim að aðlagast nýju landi og nýjum handbolta.

Tilkynnt var í morgun, mánuði eftir að Sonja samdi, að Khalil hafi einnig skrifað undir þriggja ára samning við FH í Olís deild karla. Hann er „stór og kraftmikill línumaður frá Túnis“ fæddur árið 2002. 

Undanfarin ár hefur hann leikið í heimalandinu en einnig í Ungverjalandi og síðast spilaði hann með KH Bea Famgas í Kósovó, þar sem hann meðal annars skoraði fjögur mörk í Evrópubikarnum síðasta haust.

Sambýliskonan skrifaði undir fyrir mánuði síðan

Sambýliskona Khalil, Szonja Szöke, gerði samning við FH, sem leikur í næstefstu deild, fyrir tæpum mánuði síðan. Einnig til þriggja ára. Hún er tvítugur markmaður sem hefur „þrátt fyrir ungan aldur spilað síðastliðin tvö tímabil með liði MTK í efstu deild Ungverjalands og auk þess hefur hún verið viðloðandi yngri landslið Ungverjalands sem meðal annars vann til gullverðlauna á Evrópumóti U19 ára landsliða árið 2023.“

Trúlofuðust í haust

Parið bjó í sitt hvoru landinu á síðasta tímabili, þegar Sonja lék í Ungverjalandi en Khalil í Kósovó. Þau munu nú sameinast í faðmi FH fjölskyldunnar. Svo er aldrei að vita nema giftingaveisla þeirra verði haldin í Kaplakrika, en Khalil og Sonja trúlofuðu sig síðasta haust.

FH fjölskyldan hjálpar við aðlögun

„Við erum virkilega spennt að taka á móti Chaouachi og Szonja Szöke inn í FH-fjölskylduna… Við munum gera allt í okkar valdi til að hjálpa Szöke og Chaouachi til að aðlagast nýju landi og nýjum handbolta" sagði Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður handknattleiksdeildar FH, eftir undirskriftina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×