Innlent

Keyrði með konu á húddi bíls síns eftir að hún kastaði í hann bjórglasi

Bjarki Ármannsson skrifar
Héraðsdómur hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í skilorðsbundið fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás.
Héraðsdómur hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í skilorðsbundið fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Vísir/Valli
Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann á þrítugsaldri í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Maðurinn keyrði nokkra metra með konu á vélarhlíf bifreiðar sinnar og snögghemlaði svo þannig að hún kastaðist í götuna.

Að því er fram kemur í dómsorðum hlaut konan heilahristing, tognun á hálsi og mar á hnakka við það að kastast af bifreiðinni. Atvikið átti sér stað á bílastæðinu fyrir utan Írska barinn í Hafnarfirði síðasta sumar.

Maðurinn játaði sitt brot skýlaust en myndbandsupptökur sýna einnig atburðarásina nokkuð greinilega. Á þeim sést að aðdragandi árásarinnar er sá að konan setti stórt bjórglas á vélarhlíf bíls mannsins þar sem hann var kyrrstæður. Í framhaldinu kastaði hún glasinu í framrúðu bílsins, þannig að það splundrast.

Konan sparkaði í kjölfarið nokkrum sinnum í bifreiðina og elti hana þegar maðurinn bakkaði burt af bílastæðinu. Þá lagðist hún framan á vélarhlíf bílsins en maðurinn keyrði þá af stað og stöðvaði bifreiðina skyndilega með ofangreindum afleiðingum.

Maðurinn var dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar en fangelsisrefsing hans fellur niður að ári liðnu, haldi hann skilorð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×