Innlent

„Eftirspurnin meira en framboðið“

Hjörtur Hjartarson skrifar
Margir leggja leið sína í ísbúðina Valdísi þegar vel viðrar. Mikil eftirspurn eftir húsnæði á svæðinu.
Margir leggja leið sína í ísbúðina Valdísi þegar vel viðrar. Mikil eftirspurn eftir húsnæði á svæðinu. VÍSIR
Ekki eru nema nokkur ár síðan verbúðirnar niðri á Granda stóðu tómar og voru hreinlega að grotna niður. Götumyndin er hinsvegar allt önnur í dag. Hér eru listagallerí, ísbúð og ostabúð svo eitthvað sé nefnt og fleiri eru á leiðinni. Þá eru fjögur söfn á svæðinu, CCP er með höfuðstöðvar sínar þar og svo er auðvitað gamli góði Kaffivagninn enn á sínum stað.

Sögu Kaffivagnsins má rekja 80 ár aftur í tímann og var hann löngum helsti samkomustaður sjómanna og hafnarverkamanna. Kúnnahópurinn er fjölbreyttari í dag en eigandinn segir mikilvægt, engu að síður að rómantík staðarins glatist ekki í nýjabruminu.

Grandagarður
„Já, það var alveg hjá mér að ég myndi taka og rústa staðnum. Við tókum við staðnum 2014 og komum honum þá í fínt stand. Og við erum bara að halda áfram að taka til og gera flott hjá okkur,“ segir Mjöll Daníelsdóttir, eigandi Kaffivagnsins.

Fæst fyrirtæki á Grandanum eru þó jafnrótgróin og Kaffivagninn. Búrið, sem selur allskyns ljúfmeti, opnaði dyr sínar í gamalli verbúð fyrir um ári.

„Við erum bara rosalega spennt yfir því sem er að gerast hérna á svæðinu. Það eru nýir aðilar að koma og vera hérna með okkur. Eina orðið sem ég nota yfir þetta er tilhlökkun, tilhlökkun fyrir framtíðinni,“ segir Eirný Sigurðardóttir, eigandi Búrsins.

Kaffivagninn er alltaf á sínum stað
Innan tíðar verður opnuð hjólreiðaverslun á svæðinu, sérverslun með nautakjöt, handverkskökuhús og gullsmíðaverkstæði. Þessum tíðindum fagnar Ragnheiður Guðjónsdóttir, eigandi Sifku gallerí sem tók til starfa fyrir sjö árum.

„Þá voru þetta bara geymslur, óhreinar geymslur og kuldi og leiðindi og enginn hérna. Þannig að þetta var ekkert voðalega spennandi þá,“ segir Ragnheiður.

Faxaflóhafnir eiga margar fasteignir á Granda og velja leigjendur af kostgæfni.

„Við horfum bara á hinn almenna borgarbú að honum líði eins og hann sé velkominn hingað niður á Granda. Þetta er náttúrulega sögufrægt svið,“ segir Gísli Gíslason, hafnarstjóri Faxaflóahafna.

„Eins og staðan er núna eftirspurnin mun meira en framboðið og hún á bara eftir að vaxa.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×