Innlent

Tugir félagsmanna gengu af fundi FFR

Kristjana Björg Guðbrandsdóttir skrifar
Gekk sjálfur af fundi Kristjáni Jóhannssyni, formanni og framkvæmdastjóra FFR, finnst að sér vegið. Hann er sagður oftaka laun og rekstur félagsins er sagður í ólagi.
Gekk sjálfur af fundi Kristjáni Jóhannssyni, formanni og framkvæmdastjóra FFR, finnst að sér vegið. Hann er sagður oftaka laun og rekstur félagsins er sagður í ólagi. Vísir/Daníel
„Það er vegið að mér. Það er elsta trix í heimi að telja til að ég sé með of há laun,“ segir Kristján Jóhannsson, formaður og framkvæmdastjóri FFR, félags flugmálastarfsmanna, en á þriðja tug félagsmanna gengu af félagsfundi á fimmtudagskvöld og vildu ekki taka þátt í umræðu um launakostnað og rekstur félagsins. Kristján sjálfur gekk einnig af fundi.

Á fundinum átti að ræða fjárhagsstöðu félagsins og nýtt samkomulag á milli FFR og SFR, stéttarfélags í almannaþjónustu. „Ég mætti þvílíkum dónaskap og hroka af hendi félagsmanna minna. Með aðdróttunum og fjandsamlegu atferli,“ segir hann af gangi fundarins.

Formlegar viðræður milli FFR og SFR hafa staðið yfir frá því síðasta haust og Kristján segir að nú liggi fyrir samkomulag sem sé félagsmönnum FFR hagstætt og tryggi sérstöðu þeirra. Sérstakur starfsmaður verður ráðinn á sviðið og mun SFR greiða laun hans.

„Sumir héldu að ég væri að tryggja mér starf til sex ára, þegar ég fann fyrir þeirri gagnrýni, þá dró ég mig til baka. Í dag er þetta ekki í samkomulaginu. Þessi fundur átti aldrei að snúast um umræður um þessi mál. Aftur á móti eru skoðunarmenn reikninga félagsins, sem eru fundarboðendur, búnir að vera beggja vegna borðsins í bókhaldinu alla tíð. Þeir aðstoða við gerð bókhaldsins og velja endurskoðandann.“

Kristján segist ekki oftaka laun hjá félaginu.

„Laun formanns og framkvæmdastjóra eru 771 þúsund á mánuði, það eru heildarlaun. Inni í þeim er ótakmörkuð vinnuskylda. Ofan á þetta er 166 þúsund króna bílastyrkur. Bílastyrkur er ekki laun, ég rek minn eigin bíl og fer allra minna ferða á bílastyrk.“

Einn mánuðinn voru launin 1.800 þúsund krónur. Hvernig stóð á því? „Stjórn félagsins samþykkti löngu áður en farið var í samningaviðræður að samninganefndir félagsins fengju greitt fast gjald fyrir að sitja fundi og ef fundir fóru yfir þrjá tíma, þá fengu menn sérstakt tímakaup fyrir það. Því var haldið fram að ég væri með 1.800 þúsund krónur í laun á einum mánuði, það er vegna þess að kostnaðurinn var gjaldfærður á einum mánuði.“

Kristján íhugar stöðu sína. Hann vill ekki stuðla að sundrung.

„Ég ætla ekki að stuðla að því að félagið klofni vegna veru minnar í því. Ég ætla samt ekki að flæmast í burtu, hef sinnt formennsku ágætlega síðan 2013 þótt megi deila um reksturinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×